Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Alþingi mun eingöngu koma saman vegna COVID-mála

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisnefnd Alþingis hefur ákveðið að fram til 20. apríl í það minnsta verði þingfundir einungis haldnir til að afgreiða mál sem tengjast COVID-19 faraldrinum beint. Því hefur starfsáætlun Alþingis verið tekin úr sambandi.

Forsætisnefnd þingsins ákvað þetta í morgun að tillögu forseta Alþingis. Þessi ákvörðun er í samræmi við viðbragðsáætlun Alþingis og tekin með það fyrir augum að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 eftir fremsta megni. Með því að fækka þingfundum dregur úr hættunni á því að smit meðal þingmanna komi í veg fyrir að Alþingi geti komið saman þegar nauðsyn ber til í því ástandi sem nú ríkir, þegar nauðsynlegt er að setja ýmis lög til þess að bregðast við.

Þingfundur sem áformaður var í dag var sleginn af og þess í stað verður fundað á morgun. Þá er gert ráð fyrir því að gera að lögum tvö fyrstu frumvörp ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að koma til móts við fyrirtæki og fólk í þeim þrengingum sem nú blasa við vegna veirunnar. 

Miklar breytingar á frumvarpi um greiðslur vegna skerts starfshlutfalls

Velferðarnefnd og félagsmálaráðherra vinna að breytingum á frumvarpi um greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði til launþega sem fara í skert starfshlutfall hjá fyrirtækjum sem eru að lenda í rekstrarvanda. Frumvarpið, sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mælti fyrir á þriðjudag, miðar við að ríkið greiði allt að helmingshlut launa á móti atvinnurekanda sem gerir samning um skert starfshlutfall við launþega á móti.

Líklegt er að hlutfall greiðslna úr ríkissjóð hækki og verið er að skoða að það nemi allt að 75% launa. Samanlögð launaupphæð frá vinnuveitanda og atvinnuleysistryggingasjóði nam 80% af heildarlaunum í frumvarpinu en líklegt er að það verði hækkað í 90%. Þá mátti heildarupphæðin ekki fara yfir 650 þúsund en það er einnig í skoðun hvort sú upphæð hækki.

Samkvæmt heimildum fréttastofu geta aðgerðirnar kostað ríkissjóð allt að 20 milljarða og miðað er við að þær gildi til 1. júní. 

Nýr aðgerðapakki fyrir vikulok

Þá er þess beðið að ríkisstjórnin kynni nýjan aðgerðapakka því efnahagsástandið hefur versnað mun hraðar en útlit var fyrir þegar fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar þann 10. mars. Samkvæmt heimildum fréttastofu er stefnt á að þær verði kynntar fyrir lok vikunnar. Unnið er hratt að því að koma saman útfærðum aðgerðum og leggja drög að frumvörpum sem kláruð verða um helgina, ef tími gefst til því stefnt er að því að leggja þau fyrir Alþingi á mánudag til afgreiðslu í næstu viku. 

Meðal þess sem ríkisstjórnin er nú með í skoðun er að fella niður tryggingagjald á fyrirtæki og veita ríkisábyrgð á lánum til fyrirtækja.

Þegar hefur verið samþykkt á Alþingi frumvarp fjármálaráðherra um að fyrirtæki geti frestað greiðslu á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir