Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alrangt að sjúkraþjálfarar viðhafi ólögmætt verðsamráð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeir sem sækja meðferð hjá sjúkraþjálfara þurfa nú að greiða fullt gjald, á bilinu 6.000 til 8.000 krónur, fyrir skiptið og sækja sjálfir um niðurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands. Sjúkratryggingar hafa tilkynnt Félag sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlitsins vegna gruns um ólögmætt verðsamráð. Formaður félagsins segir alrangt að sjúkraþjálfarar viðhafi ólögmætt verðsamráð.

 

Félag sjúkraþjálfara hefur sagt sig frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands vegna óánægju með litlar verðhækkanir á gjaldskrá og fyrirhugaðs útboðs á sjúkraþjálfun. Félagið sendi frá sér tilkynningu í morgun um að þeir sem sækja sér meðferð hjá sjúkraþjálfara þurfi frá og með deginum í dag að greiða fullt verð fyrir meðferðina og fara sjálfir með reikninginn til Sjúkratrygginga Íslands og óska eftir endurgreiðslu.  Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segir það misjafnt eftir sjúkraþjálfurum hversu mikið sjúklingar þurfi að greiða fyrir skiptið.

Gjaldið ekki allt niðurgreitt

„Fyrri gjaldskrá var á bilinu 6-7000 krónur. Það getur verið eitthvað sem sjúkraþjálfarar bæta ofan á það í ljósi það þessi útrunni samningur sem notast hefur verið við hefur ekki verið verðlagsleiðréttur í 9 mánuði. Það er ein af ástæðunum fyrir því að fólk er orðið langþreytt á því að fá ekki þá kjarabót sem það telur sig eiga skilið,“ segir Unnur. Sú upphæð sem sjúkraþjálfarar bæta ofan á eldri gjaldskrá verður því ekki niðurgreitt af ríkinu og því þurfa þeir sem sem fara í sjúkraþjálfun sjálfir að greiða það.

Unnur segir að samningurinn sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga hafi runnið út í janúar. Í stað þess að semja að nýju hafi Sjúkratryggingar ákveðið að bjóða sjúkraþjálfun út. 

„Eins og útboðið er núna útbúið af hálfu Sjúkratrygginga Íslands þá er eingöngu keppt um verð. Þannig að þættir eins og gæði, endurmenntun sjúkraþjálfara, sem er náttúrulega skjólstæðingum til góða, kennsla nema er í uppnámi. Sjúkraþjálfun sem er veitt útfrá öldrunarheimilum víða um land, hún er í uppnámi. Það eru svo margir vankantar á þessu útboði að þetta er hlutur sem við hreinlega treystum okkur ekki til að taka þátt í,“ segir Unnur.

Alvarlegar ávirðingar

Með fréttatilkynningu sem Félags sjúkraþjálfara sendir frá sér í morgun fylgir bréf frá forstjóra Sjúkratrygginga. Það segir að forstjórinn lítið það mjög alvarlegum augum ef rétt reynist að Félag sjúkraþjálfara hafi sent félagsmönnum gjaldskrá sem gilda eigi frá og með deginum í dag. Forstjóri Sjúkratrygginga hyggist því tilkynna Samkeppniseftirlitinu grun um ólögmætt verðsamráð.

„Þetta er algjörlega rangt og mjög alvarlegar ávirðingar sem eru bornar á okkur í þessu bréfi sem mótmælum harðlega,“ segir Unnur.

Fréttastofa reyndi að ná tali af forstjóra Sjúkratrygginga í morgun en án árangurs.