Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Álögur eiga ekki að þurfa að breytast

27.09.2019 - 09:22
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Álögur eiga ekki að þurfa að breytast þótt leiðir til fjármögnunar nýs samgöngukerfis breytist, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Málið snúist einnig um forgangsröðun í ríkisfjármálum.

„Það er nú markmiðið með þessu öllu að finna leiðir til þess að það þurfi ekki að gerast og það á ekki að þurfa að gerast vegna þess að við erum með fjármagn til þess að framkvæma,“ sagði Bjarni í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Til dæmis jafngildi eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka því að fara í þessa stórkostlegu uppbyggingu til 15 ára á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Málið snúist líka um það að gera upp á milli valkosta og forgangsraða ríkisfjármálum. 

Það verði að bæta upp ívilnanir

Hann segir að ívilnanir vegna umhverfisvænna samgangna hafi gengið vel. Hins vegar þurfi að bæta þær upp. 

„Það er vegna þess að við erum að reyna að leiða fram ákveðna breytingu. Það verður þá eitthvað annað að koma í staðinn annars geta menn ekki haft uppi væntingar um að við aukum öryggi í umferðinni, styttum biðtíma, aukum almenningssamgöngur og svo framvegis.“

Gjaldtaka byggist meira á notkun á vegakerfinu

Meðal annars stendur til að leggja á veggjöld á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 ár og þannig flýta framkvæmdum sem stæðu að óbreyttu til ársins 2070. Rætt hefur verið um að hámarksgjald verði 200 krónur og lægsta gjaldið 60 krónur fyrir hverja ferð. Enn á eftir að útfæra tillögurnar.

Bjarni segir að útfærslan velti meðal annars á því hvaða tæknilegu lausnir verði mögulegar. Hann sé að koma á fót sérstökum hópi sem gera eigi tillögur um þessi efni. 

„Það sjá hins vegar allir sem eru með opin augun að við munum fara í gjaldtöku sem byggir meira á notkun á vegakerfinu með einum eða öðrum hætti“. Þegar sé þetta gert með eldsneytisgjöldum - gjöldum sem lögð eru á bensínlítran, sem endurspeglar að þeir sem nota vegina borga.

Samgöngumál hagsmunamál fyrir höfuðborgarsvæðið

Bjarni segir að þetta sé risastórt mál sem teygi sig yfir 15 ár og snúist um fólkið á höfuðborgarsvæðinu og framtíðarsýn svæðisins. 

Hann líti svo á að ákveðin kyrrstaða hafi nú verið rofin í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Allt of lítið hafi gerst í þeim efnum í allt of langan tíma.

„Ég geri mér grein fyrir því að útfærslan á þessu skiptir miklu máli og það verður fylgst náið með því hvernig heildar álögur af umferð og ökutækjum muni þróast. Sú vinna er öll fyrir framan okkur. Við erum bara að hefja þá vegferð í raun og veru að setja saman þessa ólíku þætti sem muni fjármagna þetta þegar upp er staðið,“ segir hann.

Skrifað undir samkomulagið í gær 

Samkomulag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um 120 milljarða samgönguframkvæmdir á næstu 15 árum var undirritað í gær. Röskum 50 milljörðum króna verður varið til eflingar stofnvega, 50 milljörðum í Borgarlínu, rúmum átta milljörðum í göngu- og hjólastíga og sjö milljörðum í bætta umferðarstýringu.

Einnig stendur til að fjármagna verkefnið með öðrum leiðum, svo sem með sölu á Keldnalandi og veggjöldum á helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins.