„Almenningur hefur ekki heimtingu á afhjúpun“

01.10.2019 - 16:39
Mynd: RÚV / RÚV
Í gær birtist yfirlýsing í fjölmiðlum frá hópi sem kallar sig Metoo-konur í þeim tilgangi að minna á upprunalegar ástæður byltingarinnar. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að með þátttöku hafi þolendur ekki gengist í ábyrgð fyrir mannorði gerenda sinna né heldur ákvörðunum þeirra sem kusu að áreita þær eða beita ofbeldi.

Rithöfundurinn og aðgerðasinninn Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segist hafa orðið vör við háværan misskilning, í upphafi metoo-byltingarinnar, um tilgang hennar. Því var haldið fram að ætlunin væri í raun að knésetja ákveðna menn og hafa af þeim mannorð og starfsframa. Raddirnar eru að sögn Þórdísar enn á sveimi og hafa Metoo-konur ákveðið að kveða þær endanlega í kútinn og útskýra tilgang byltingarinnar með yfirlýsingu. „Við teljum fulla ástæðu til að hnykkja á því að þetta er fjarri því sem byltingin gengur út á. Þetta snýst ekki um einstaklinga heldur að afhjúpa kerfislægt misrétti sem hefur verið við lýði lengi í manna minnum.“

Þórdís er ein þeirra kvenna sem skrifa undir yfirlýsinguna en hún kom í Síðdegisútvarpið og sagði Hafdísi Helgu Helgadóttur og Guðmundi Pálssyni frá tilurð hennar.

Í umræðum síðustu daga segist hún ásamt fleirum hafa orðið vör við sífellt háværari kröfur um að konur sem tilkynnt hafa áreitni á vinnustað, eða hafa verið beittar misrétti eða ofbeldi af samstarfsfólki, eigi ekki rétt á að tala við trúnaðar- eða yfirmann og óska eftir að aðhafst sé í málinu fyrr en dómur liggi fyrir í málinu. Hún mótmælir þeirri kröfu. „Það er bara langt frá því að virka svoleiðis. Í fyrsta lagi væri bara lítið aðhafst í vinnustaðamálum ef það þyrfti að liggja fyrir dómur í hvert skipti sem mál kæmu upp og svo vitum við að í réttarkerfinu er brotalöm hvað varðar ofbeldi og áreitni gagnvart konum,“ segir Þórdís.

Þetta sé annað af tveimur atriðum sem Metoo-konur töldu sig knúnar til að leiðrétta en hitt varðar þá kröfu að konur sem leiti til yfirmanna með slíkar ásakanir þurfi í kjölfarið óhjákvæmlega að stíga fram opinberlega. „Þetta er líka rangt. Það er ekkert sem skyldar þolendur til að svipta sig þeirri nafnleynd sem er sjálfsögð í viðkvæmum vinnustaðamálum. Almenningur hefur enga heimtingu á slíkri afhjúpun.“

Margir hafa nefnt það í tengslum við viðkvæm mál sem þessi að það sé ósanngjarnt að fólk fái ekki tækifæri til að svara fyrir sig þegar því sé haldið leyndu hver lagði fram kvörtun og í hverju ásakanirnar felast. Þórdís segist mega til með að lýsa yfir trausti á þá atvinnurekendur sem takast á við erfið mál sem þessi og telur að það sé ekki léttbært fyrir neinn því það sé engin ein rétt leið. „Þetta er aldrei einfalt. Það er ekki hægt að segja að ein regla gildi um þessi mál þar sem þau eru ólík og misalvarleg. Það sem er hins vegar mikilvægt er að geta haldið áfram með hið mikilvæga byltingarstarf sem metoo var. Við þurfum að temja okkur að leyfa þolendum að njóta vafans og í öðru lagið að leyfa atvinnurekendum að vinna eins faglega og hægt er,“ segir hún. 

„Enn fremur þurfa atvinnurekendur að hafa svigrúm til að bregðast við vinnustaðamálum án þess að sú krafa sé gerð að það sé lögreglumál eða fjölmiðlamál. Það hefur ekki tíðkast hingað til og ætti ekki að tíðkast eingöngu vegna þess að konur og kynferðisleg áreitni á í hlut.“  Með yfirlýsingunni vilji þær mótmæla bakslagi í baráttunni og svara gagnrýnisröddum svo hægt sé að halda áfram að byggja upp betra og þolendavænna samfélag.

Rætt var við Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi