Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna veðurs

13.02.2020 - 12:33
Mynd: RÚV / RÚV
Almannavarnir ríkisllögreglustjóra hafa lýst yfir óvissustigi um allt land. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Ákvörðun um þetta var tekin eftir hádegi. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.

Spáð er aftakaveðri á morgun með appelsínugulum veðurviðvörunum um allt land. Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarna, sagði fyrir hádegi að almannavarnir vinni nú að því að upplýsa viðbragðsaðila og lögreglustjóra á öllu landinu þannig að kerfið verði tilbúið. „Við erum tilbúin til að takast á við það slæma vetrarveður sem er í vændum.“ Hjálmar vísar fólki eindregið á vef Vegagerðarinnar til að sjá hvaða vegir verða lokaðir.

Líkur á vandræðum við að komast til vinnu

Hjálmar segir að fólk á höfuðborgarsvæðinu lendi í vandræðum í leið á vinnu í fyrramálið. „Ég held að ég geti alveg fullyrt það að fólk lendi í einhverjum vandræðum. Það fer að sofa í slæmu vetrarveðri og vaknar í brjáluðu veðri. En ég ætla bara að biðja fólk um að líta út um gluggann áður en það fer út og taka ákvarðanir miðað við það. Maður treystir fólki til að taka sjálfstæðar ákvarðanir miðað við hvernig umhorfs er og hvað sagt hefur verið í fréttum,“ segir Hjálmar. 

Hjálmar býst við því að björgunarsveitir verði reiðubúnar til að koma heilbrigðisstarfsfólki á milli staða ef þörf verður á. „Ef maður horfir tugi ára aftur í tímann þá hefur starfsfólk spítala fengið þjónustu hvað þetta varðar. Ég ætla nú bara að fullyrða að það verði engin breyting á því,“ segir Hjálmar. 

Hann vill þó ekki fullyrða að skólastarf verði fellt niður. Venjan sé að skólarnir séu opnir en það sé hlutverk foreldra að taka ákvarðanir.

Hjálmar ítrekar mikilvægi þess að fólk sé rólegt og fylgist með fréttum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar.

Vindhraðinn svipaður og í óveðrinu í desember

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, tekur í sama streng og Hjálmar segir að svo geti farið að viðvörunarstig vegna veðursins verði hækkað á nokkrum stöðum á landinu þegar líður á daginn. Hún hvetur fólk til að fylgjast vel með. Rætt var við hana í hádegisfréttum. 

Mynd: Skjáskot / RÚV

Samkvæmt spám verður vindhraðinn á sunnanverðu landinu á morgun svipaður þeim og var í ofsaveðrinu á Norðurlandi í desember. Þetta er þó annars konar veður núna, austanátt og ekki slydduveður líkt og þá, segir Elín.

„Meðalvindhraði gæti farið yfir 30 metra á sekúndu á Suðurlandi og líklega á Suðausturlandi, Faxaflóa mögulega líka í Skagafirði,“ segir hún. Almennt verður vindhraðinn um 20 til 28 metrar á sekúndu. „Það fylgir þessu mikil ofankoma sem er það sem veldur auknum samfélagslegum áhrifum og þá líka álagi á raforkukerfið.“ 

Veðrið verður lang verst sunnan til í fyrramálið

Veðrið verður lang verst á Suðurlandi í fyrramálið, það versnar hratt í nótt og verður líklega lang verst á milli klukkan 5 og 11 á sunnanverðu landinu og þetta á líka við um Faxaflóa og höfuðborgarsvæðið. „Upp frá því þá hvessir á norðanverðu landinu og þar verður þetta verst  milli 11 og 13 og þá dregur hratt úr veðrinu á Suðurlandinu. Þannig að þetta er í nótt og í fyrramálið sunnan til á landinu og svo undir hádegi og fram eftir degi fyrir norðan,“ segir hún. 

Í austanveðrum eins og þessu, til dæmis því sem varð 7. desember 2015, hafa verið sterkar vindhviður og mjög mikið foktjón í Skagafirði. Elín segir að því sé viðbúið að það geti gerst aftur nú ef aðstæður verði svipaðar. 

Veðrið á höfuðborgarsvæðinu verður afskaplega vont, líklega verður snjókoma á Suðausturlandi og mokandi hríð þar, segir Elín. Einhver snjókoma og skafrenningur verða væntanlega á Suðurlandi og svo snjókoma á Reykjanesi og sérstaklega sunnan til á Faxaflóa.

Fréttin hefur verið uppfærð.