Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Alma komin í japanska landhelgi

07.05.2014 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Alma, flutningaskip sem er á leið til Tókýó með 2000 tonn af langreyðarkjöti, er komið inn í japanska landhelgi, samkvæmt vefsíðunni Marinetraffic.com þar sem hægt er að fylgjast með skipaumferð um allan heim.

Alma lagði úr höfn í Hafnarfirði 20. mars - fyrir hálfum öðrum mánuði. Hafnarfjarðarhöfn er síðasta höfn þar sem vitað er með vissu að Alma hafi lagst að bryggju. Ekki liggur fyrir hvernig skipið hefur fengið olíu eða vistir á leiðinni. Ölmu var siglt fyrir Góðrarvonarhöfða, í stað þess að fara í gegnum Súez-skurðinn. Hætt var við að koma til hafnar í Durban í Suður-Afríku, vegna mótmæla heimamanna. 21 þúsund manns höfðu skrifað undir erindi til hafnaryfirvalda um að meina skipinu að koma til hafnar.

Á fréttasíðunni Tradewinds segir að svo virðist sem Alma hafi hvergi  getað lagst að bryggju á leið sinni. Sjálfvirkir sendar bendi til að Alma hafi komið að Port Louis, á Márítus. Haft er eftir embættismönnum þar að skipið hafi lagst við ankeri utan hafnarinnar og skipverjar komið í land á mótorbáti. Ekki fengust svör við því hvort skipið hafi fengið olíu en það er talið ólíklegt.

Skipið er nú skammt suður af Tókýó, Japan. Fréttastofa leitaði í dag eftir upplýsingum frá Hval hf. um hver væri kaupandi langreyðarkjötsins, hvers vegna lengri leiðin hafi verið farin til Japans og hvar olía og vistir voru teknar á leiðinni. Engin svör hafa borist.