Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Alltof langt gengið að krefjast afsagnar

22.12.2017 - 08:52
Mynd með færslu
Brynjar Níelsson. Mynd: Skjáskot - RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé alltof langt gengið þegar menn krefjist afsagnar dómsmálaráðherra vegna dóms Hæstaréttar um skipan dómara við Landsrétt. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ekki sé hægt að líkja dómnum yfir dómsmálaráðherra við dóma sem fallið hafa vegna úrskurða og ákvarðana ráðuneyta. Þessu máli sé öðruvísi háttað.

Nýlegur dómur Hæstaréttar um að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefði brotið lög þegar hún vék frá tillögum hæfisnefndar um skipun dómara við landsrétt var til umræðu í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

„Krafa um afsögn í þessu er alltof langt gengið. Þetta er svipað og ef menn myndu segja alltaf við dómara Hæstaréttar: Heyrðu Mannréttindadómstóllinn er að túlka þessar tjáningarfrelsisreglur og friðhelgi einkalífsins öðruvísi en þið, þið klikkuðuð. Þið verðið bara að hætta,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann sagði óhjákvæmilegt að dómstólar kæmust að annarri niðurstöðu en stjórnsýslan, sérstaklega þegar fjallað væri um mjög matskennd ákvæði eins og í skipun dómara í Landsrétt. „Þetta væri hins vegar verra hefði verið kominn dómur um nákvæmlega svona skipanir áður, og dómstólar komist að niðurstöðu, og ráðherra sé að fara gegn því.“

Brynjar sagði að dómnefndin hafi ekki farið í hæfnismat heldur bara gefið einkunn fyrir það hvar umsækjendur hefðu starfað.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, andmælti Brynjari. „Þetta er auðvitað bara allt annað mál, þegar undirstofnun og svo ráðuneyti sem æðra stjórnvald er að taka ákvörðun eða úrskurða og því er svo snúið við í Héraðsdómi. Það er bara allt annað en embættisfærslur ráðherra og hans starf per se.“

Hún sagði að þetta væri ekki líkt dómum sem sneru ákvörðunum eða úrskurðum ráðuneyta. „Það sem hún er að gera þarna er að hún er með beinum hætti að hafa þarna áhrif. Það er ekki hennar ráðuneyti sem er þarna úrskurðaraðili í þessu máli. Þetta er hún sem tekur ákvörðun, án rannsóknar, um að skipta fjórum út og fjórum inn,“ Sagði Helga Vala og vísaði til dóms Hæstaréttar um að Sigríður hefði brotið gegn rannsóknarskyldu sinni.

Mynd með færslu
Helga Vala Helgadóttir. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV