Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allt sett upp á borð

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Rúnars

Allt sett upp á borð

10.12.2019 - 13:42

Höfundar

Rótin er einlægasta plata Láru Rúnarsdóttur til þessa og eru ríkar ástæður fyrir því. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Ný plata Láru Rúnarsdóttur kemur út í kjölfar kulnunar og rækilegs endurmats á öllum þáttum tilverunnar. Hún sker sig því frá öllum hennar verkum til þessa. Aldrei hefur Lára verið einlægari, opnari og óhræddari við að sýna okkur nákvæmlega hver hún er. Ekkert poppprjál, sýning eða leikur. Bara „hún“, alla leið. Fyrst um sinn var ég hreinlega ekki viss um þessa plötu, fannst nánast full langt gengið í að bera sig svona og hlaða öllu upp á borð, en með tíð, tíma og endurtekinni hlustun byrjar platan að sökkva inn. Það er einhver hlýr og sannferðugur tónn sem landar þessu öllu saman. Rótina vann hún með þeim Sóleyju Stefánsdóttur og Alberti Finnbogasyni en hljómsveit Láru, sem lék m.a. á útgáfutónleikum hennar á dögunum í Bæjarbíói, Hafnarfirði, skipa ásamt Láru þau Sóley, Albert, Arnar Gíslason, Birkir Rafn Gíslason, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir og Unnur Jónsdóttir.

Stemmur

Skoðum tónlistina aðeins. Titillagið er með miklum ágætum. Róleg, dramatísk stemma sem nær manni með fyrsta píanóslaginu. Já og hér, og í fleiri lögum, má t.d. skynja hug og hendur Sóleyjar. Næm smíð. „Allt“ er stutt lag, það næstsíðasta, og inniheldur flottan, víraðan gítarleik sem gefur því sérstæðan blæ. „Dansi Dansi“ er þá prýðilegt dæmi um þann hljóðláta en þó áhrifaríka andblæ sem er yfir öllu hér. Fer rólega í gang og umbreytist svo í barna/vögguvísuna „Dansi Dansi dúkkan mín“. Vel útfært og glúrið.  „Heimar“ er sömuleiðis vel heppnað, dulrænt og seyðandi. Flæðið hér er látlaust, þægilegt, umlykjandi. Textar eins og opin dagbók, hreinskiptnir ástartextar til barna og eiginmanns. Naktir og beinskeyttir, og fara beint í kjarnann eða ætti ég að segja rótina? Lára sagði frá því í viðtali að hún hefði litlu breytt í textum, leyft þeim að koma eins og þeir væru og leyfa þeim að standa þannig. Líkt hefði verið með lögin, þeim hefði verið leyft að koma á eigin tíma, aldrei var sest niður með það að markmiði að semja.

Kamelljón

Lára hefur verið giska mikið kamelljón á ferli sínum og reynt sig við ýmis tilbrigði í gegnum plöturnar sínar. Hún hefur verið söngvaskáld, bjartur poppari, myrkur popprokkari og dempt ljóðrænum, nánast þjóðlagatónlistarlegum vísunum, á list sína (síðasta plata, Þel). Hún hefur verið missannfærandi í þessum rullum öllum, og t.a.m. gat ég aldrei keypt hörðu ísdrottninguna almennilega, þá sem við hittum fyrir á Moment (2012). Lára, hún er hins vegar sú sem við fyrirfinnum á þessari plötu. Þetta er Lára. Fölskvalaus, einlæg og heiðarleg. Sama Láran og maður spjallar við úti á götuhorni eða á Messenger. Björt, glöð, falleg og opin.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Lára Rúnars - Rótin

Tónlist

Sjálfsást og súkkulaði lykill að vellíðan

Menningarefni

Segir að íslenska rappsenan sé strákaklúbbur

Menningarefni

Beðin um að dansa á nærfötunum