„Allt í einu var ég bara læknuð“

Mynd: RÚV / RÚV

„Allt í einu var ég bara læknuð“

02.01.2020 - 15:01

Höfundar

Líf afreksíþróttakonunnar Karenar Axelsdóttur snerist á hvolf fyrir sex árum þegar hún lenti í lífshættulegu hjólreiðaslysi og hálsbrotnaði. Eftir fjögurra ára veikindi, verki og vansæld ákvað hún að setjast aftur við stýrið í sínu lífi og taka það föstum tökum. Hana grunaði þó aldrei að hún myndi aftur stíga á verðlaunapall á stórmótum.

Þegar Karen Axelsdóttir var 27 ára gömul ákvað hún einn morguninn, þar sem hún vaknaði timbruð eftir aðeins of skemmtilegt kvöld, að hún skyldi snúa blaðinu við og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl með tilheyrandi hreyfingu og hollu mataræði. Fljótlega var hún orðin afreksmanneskja í þríþraut og náði hún meðal annars besta árangri sem nokkur Íslendingur hefur náð í járnkarli. 

Árið 2013 lenti Karen í miklu áfalli þegar hún hálsbrotnaði og braut rifbein og hrygg í skelfilegu hjólreiðaslysi. Líf hennar fór á hvolf og í fjögur ár gat hún í orðsins fyllstu merkingu ekki haldið haus. Árum saman leið henni eins og hún væri með þungan hjálm á höfðinu allan daginn, þurfti stundum að halda því uppi með handafli og þessu ástandi fylgdu krónískir höfuðverkir og hitavella. Í þrjú og hálft ár var þessi fyrrum afreksmanneskja, sem virtist vera ósigrandi, orðin vansæl, bitur og veik.

Karen fékk nóg af því að vera komin á þennan stað og tók einn daginn ákvörðun um taka líf sitt og sín eigin örlög föstum tökum á ný. Hún spurði sjálfa sig hvernig hún komst þangað sem hún var áður en hún slasaðist og varð staðráðin í því þrátt fyrir að hún myndi mögulega aldrei aftur rata á eiginlegan verðlaunapall skyldi hún breyta um hugarfar og verða sigurvegari í eigin lífi. Sigmar Guðmundsson ræddi við Karen í viðtalsþættinum Okkar á milli sem hefur göngu sína í kvöld. „Þetta var eins og í lygasögu,“ segir Karen brosandi um þá tilfinningu að vinna hverja hjólreiðakeppnina á fætur annarri á síðasta ári. „Þegar ég byrjaði að keppa í sumar þá ætlaði ég bara að njóta en svo fattaði ég hvað ég væri sterk og hvað mér liði vel.“

Hún bjóst lengi við að lenda í bakslagi en þegar það gerðist ekki ætlaði hún ekki að trúa því. Hún varð bikarmeistari í kvennahjólreiðum og fjallahjólreiðum og vann stærstu hjólreiðakeppni á Íslandi með glæsibrag án þess að finna fyrir meiðslum eða vanlíðan. „Ég varð svo hissa. Ég hugsaði bara: Bíddu er þetta ekki að fara að koma? Svo bara leiddi eitt af öðru og allt í einu var ég læknuð.“

Í þættinum okkar á milli fær Sigmar Guðmundsson til sín góða gesti úr öllum áttum og ræðir við þá undir fjögur augu en gestirnir eiga það sameiginlegt að hafa áhugaverða sögu að segja. Þátturinn hefst klukkan 22:20.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Himnaríki er að vera ekki í þráhyggjukasti“

Bókmenntir

Hætti að geta slökkt á sársaukanum