Allt bendir til þess að eldurinn hafi kviknað á svölum

20.11.2019 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknar Lögreglunnar á Akureyri á upptökum eldsvoða á Norðurgötu aðfaranótt sunnudags benda til þess að eldurinn hafi komið upp á timbursvölum á vesturhlið hússins. Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri í samtali við fréttastofu.

Reyna að þrengja tímarammann

Lögreglan nyrðra hefur rætt við fjölmörg vitni í þeirri von um að þrengja tímarammann frá því eldurinn kom upp og þar til björgunarfólk kom á staðinn. Þá hefur tæknideild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsakað vettvang. Þrjár íbúðir voru í húsinu, sem var gamalt, bárujárnsklætt timburhús. Engan sakaði en eignatjón er umtalsvert.

Mikið eignartjón á stuttum tíma

Gríðarlegt eignatjón hefur orðið í fjórum húsbrunum á Akureyri undanfarnar þrjár vikur. Sjö íbúðir eru ýmist mikið skemmdar eða ónýtar. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri segir afar mikilvægt að vandað sé til brunavarna í gömlum húsum en algengustu orsök húsbruna sé að pottur gleymist á eldavél.

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi