Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Allt annað „að sjá árkvikindið núna“

29.12.2015 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grjótá í kvöld - Alda Björk Fossberg Óladóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Aðalsteinn Sigurðsson - RÚV
Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segist eiga von á því að rýmingu sex húsa á Eskifirði verði aflétt núna um átta. Hann segir að unnið hafi verið að því að styrkja árbakka Grjótár til klukkan eitt í nótt og að því verkefni verði haldið áfram í dag.

„Það er allt annað að sjá árkvikindið núna,“ segir Jónas en hann ætlaði að eiga símafund með almannavarnarnefnd klukkan 8.

Björgunarsveitarmenn og starfsmenn Vegagerðarinnar voru að til miðnættis við að moka krapa út úr bænum Aðalbóli í Hrafnkelsdal en húsið stórskemmdist í miklu krapaflóði sem varð um fimm leytið síðdegis í gær. „Einn gluggi fór alveg inn og að hluta tveir aðrir. Það er geymsla við húsið, hún er meira og minna brömluð," segir Páll. Aðspurður hvað hvernig mönnum verði við svarar hann. „Maður hefur engan tíma til að hugsa um svoleiðis. Það var eiginlega komið myrkur þegar þetta gerist," sagði Páll Pálsson, bóndi á bænum í samtali við fréttastofu í gær.

Þar  gistu menn í nótt en von er á starfsmönnum ofanflóðavaktar Veðurstofunnar til að meta stöðuna, að sögn Jónasar.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að Fjarðarheiði sé ófær vegna vatnsskemmda og sömuleiðis Vattarnesvegur í Reyðarfirði.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að áfram sé óvissustig vegna snjóflóða á Austurlandi og hættustig á Eskifirði.

Það hefur snjóað um sunnanvert landið og þar er snjóþekja eða hálka á vegum. Til að mynda er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum, og eins er hálka á Reykjanesbraut og snjóþekja á Suðurnesjum. Hálkublettir eru á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu.

Verið er að hreinsa vegi á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem víða er snjóþekja og sumstaðar éljagangur. Þæfingsfærð er á Svínadal og eins á Mikladal en þungfært á Kleifaheiði.

Vegir á Norðurlandi eru yfirleitt vel færir þótt sumstaðar sé nokkur hálka. Þó er varað við hvassviðri á Siglufjarðarvegi og Hólasandur er ófær.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Austurlandi. Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát þar sem vatn flæðir yfir veg eða hefur grafið úr vegi eða vegköntum. Þetta á einkum við um Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarð.