Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt að verða klárt fyrir komu flóttafólksins

13.05.2019 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Hátt í fimmtíu sýrlenskir flóttamenn koma til landsins á morgun og á miðvikudag. Fólkið verður búsett á Hvammstanga og Blönduósi. Undirbúningur fyrir móttöku nýrra íbúa hefur staðið yfir undanfarið á Blönduósi og Hvammstanga. Nýju íbúarnir eru 44 sýrlenskir flóttamenn sem dvalið hafa í Líbanon undanfarin ár, níu fjölskyldur og á þriðja tug barna. Fyrri hluti hópsins kemur til Hvammstanga annað kvöld og sá síðari á Blönduós á miðvikudagskvöld.

Verkefnastjóri hefur verið ráðinn á báða staði auk túlka, stuðningsfulltrúa og menningarmiðlara. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er verkefnastjóri á vegum Rauða krossins. Hún segir að móttaka íbúanna hafi krafist mikillar vinnu fjölda sjálfboðaliða sem nú sé á lokametrunum. 

„Hann hefur til dæmis falist í því að taka á móti sendingum frá IKEA, setja matarstell í skápa og þvo þau og koma rúmum saman. Fólk hefur mikið verið að folk hefur mikið veirð að spreyta sig á IKEA leiðbeiningum og svo hefur líka verið mikið mál að safna húsgögnum frá bæjarbúum og koma þeim fyrir.

Guðrún segir að síðustu dagar hafi verið strembnir en að allt sé að verða klárt á báðum stöðum. Hún segir að bæjarbúar bíði fólksins með eftirvæntingu. 

„Fólk stoppar mig allavega úti á götu og spyr hvenær fólkið fari að koma og það er bara almennur spenningur. Krakkarnir í skólanum eru ofboðslega spennt og við, ég og fólkið og verkefnastjórarnir, höfum verið á fullu og túlkar að funda með lykilaðilum innan stofnana. Mér heyrist að það sé mikiill spenningur alls staðar og eftirvænting.