Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Allt að önnur hver gylta með legusár

24.09.2015 - 19:37
Legusár á gyltu. Mynd frá Noregi.
Legusár á gyltu. Mynd frá Noregi. Mynd: Mattilsynet
Matvælastofnun hefur farið fram á að gyltum á íslenskum svínabúum verði slátrað vegna slæmra legusára. Legusár fundust á gyltum á öllum búum sem heimsótt voru í fyrra. Allt að önnur hver gylta var með sár.

Á íslenskum svínabúum eru gyltur hafðar á básum í mun meira mæli en í nágrannalöndunum. Samkvæmt nýrri reglugerð er bannað að hafa þær á básum nema á fengitíma og í kringum got, en svínaræktendur fá allt að tíu ára aðlögunartíma.

Langvarandi vera á þröngum básum getur haft veruleg áhrif á heilsu gyltnanna. Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að svonefnd bógsár, sem eru legusár á herðablöðum, stafi oft af því að gylturnar liggi á hörðu undirlagi, og liggi mikið því þær séu lélegar í fótum vegna hreyfingarleysis á básunum. Legusárin eru algengust eftir got.

Þóra segir að í fyrra hafi Matvælastofnun farið í eftirlit á níu af ellefu svínabúum á landinu sem halda gyltur. Legusár hafi fundist á gyltum á öllum þessum búum. Á milli 15% og 50% gyltna á hverju búi hafi haft legusár.

Þóra segir að til samanburðar hafi í norskri rannsókn fyrir nokkrum árum 10% gyltna sem komu til slátrunar verið með legusár. Sárunum er að danskri fyrirmynd skipt í þrjá flokka, eftir því hversu stór þau eru. Hér sjást þau mæld á dönsku svínabúi. Þóra segir að lítil sár og sár á byrjunarstigi séu algengust, en þá þurfi samt að grípa til aðgerða. „Sem betur fer eru verstu sárin ekki algeng, en þau sjást,“ segir Þóra. Komið hafi fyrir að Matvælastofnun hafi farið fram á að gyltum verði slátrað.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV