Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allt að 90% fá SMS frá Neyðarlínunni

24.06.2019 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Það er ekki víst að allir sem eru í Skorradal fái SMS-skilaboð frá Neyðarlínunni um hættu á skógareldum. Það er þó ekki tengt símafélögum, eins og margir hafa talið — heldur símsendum.

„Við sendum boð á alla sem eru á svæðinu, en við vitum að það eru ekki allir sem við náum að tala við. Við náum að tala við 80 til 90% þeirra sem eru á svæðinu, ef við höfum valið svæðið vel út frá því hvar símasendar eru staðsettir,“ segir Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Neyðarlínunni. Hann var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2.

Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi í tvær vikur vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi. Því eiga þeir sem aka í gegnum Skorradalinn á milli klukkan 12 og 18 að fá SMS frá Neyðarlínunni sem brýna fyrir fólki að fara varlega með eld vegna langvarandi þurrka á svæðinu.

Treysta á að fólk láti boðið berast

Tómas segir að almannavarnir treysti á það að þeir sem fái boð láti það berast. „Svo verðum við að treysta á það að hinir sem ekki fá boð, kannski vegna þess að síminn var ofan í kjallara þegar það var sent eða af því þeir eru enn á sendi sem þeir keyrðu fram hjá fyrir korteri síðan. Þá verðum við að treysta því að þeir fái að frétta þetta frá vinum sínum.“

Fyrstu boðin voru send á frekar þröngt svæði að mati Tómasar. „Þá kom í ljós að þeir sem voru í mynni dalsins voru ekki að fá boð. Þá stækkuðum við mengið og tókum líka senda sem voru hjá Hvanneyri,“ segir Tómas. En þá fékk fólk sem var hjá Hafnarfjalli og Borgarnesi skilaboð. „Sumir kvörtuðu yfir því að það hefði fengið erindi sem eitthvað sem það hefði ekkert um að gera og ætti að lækka verð sumarhúsanna þeirra eða hvað það nú er, með því að útskýra einhverjar hættur. En okkar erindi er að vara fólk við hugsanlegum hættum eða tjóni.“