Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Allt að 70% íbúða í sumum götum á Airbnb

03.05.2019 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: airbnb skjáskot
Fjöldi eigna á höfuðborgarsvæðinu sem skráðar eru til útleigu á vefsíðunni Airbnb hefur margfaldast á liðnum árum. Í sumum götum eru allt að 70 prósent eigna skráðar á síðunni. 60 prósent eignanna eru í 101 Reykjavík. Airbnb virðist ýta undir félagslegan ójöfnuð.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Dr. Anne-Cécile Mermet, borgarlandfræðings og lektors við Sorbonne háskóla í París, á áhrifum Airbnb á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Mermet gerði rannsóknina fyrir hönd Höfuðborgarstofu með styrk frá Ferðamálastofu og Íbúðalánasjóði.

Hér má sjá niðurstöður rannsóknarinnar.

Fjöldi skráðra eigna á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldaðist frá janúar 2016 til janúar 2018, fór úr 2.032 í 4.154. Langstærstur hluti eigna á Airbnb er í Reykjavík eða 80 prósent. 37 prósent af heildarfjöldanum er í póstnúmeri 101. Því eru 60 prósent skráðra eigna á síðunni í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni.

Flestar eignir á Airbnb eru á Laugavegi, Hverfisgötu, Grettisgötu, Bergþórugötu, Óðinsgötu og Bjarnarstíg. Allt að 70 prósent eigna í þessum götum eru skráðar til útleigu á síðunni.

Í apríl voru 2.657 eignir skráðar til útleigu í Reykjavík og var meirihluti þeirra, 58 prósent, starfræktur án lögbundins leyfis.

Fram kemur í niðurstöðunum að leigusalar á höfuðborgarsvæðinu eru ekki einsleitur hópur með svipuð markmið með útleigunni og áhrifin því mismunandi. Í sumum tilfellum hefur eignarhald færst í hendur fjárfesta en í öðrum hefur útleiga í gegnum Airbnb hjálpað íbúum að halda í heimili sín eða eiga fyrir lífsnauðsynjum. Engu að síður er staðan sú að Airbnb og stuttir leigusamningar virðast frekar ýta undir félagslegan ójöfnuð samkvæmt rannsókninni.

„Starfsemin getur skapað fjárhagsleg tækifæri fyrir þá sem þegar eiga eignir og þannig treyst enn betur stöðu þeirra á húsnæðismarkaði. Hins vegar eru afleiðingarnar minna framboð og hærra verð á leigumarkaði sem gerir þeim sem eru á höttunum eftir að eignast heimili til kaups eða leigu erfiðara fyrir,“ segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.