Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Allt að 440 milljónir í sanngirnisbætur fatlaðra

05.03.2020 - 09:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra leggur til að fötluðu fólki, sem vistað var sem börn á öðrum stofnunum á vegum ríkisins en þeim sem unnar hafa verið skýrslur um, verði greiddar 390-440 milljónir króna í sanngirnisbætur. Talið er að 80-90 manns eigi rétt á bótum. Með þessu er stefnt að því að ljúka samfélagslegu uppgjöri vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður á aðgengilegri og einfaldari hátt en gert hefur verið.

Þetta kemur fram í greinargerð með drögum að lagafrumvarpi sem birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Þar kemur fram að hingað til hafi aðeins þeir átt rétt á sanngirnisbótum sem vistaðir hafi verið á Kópavogshæli og aðrar þær stofnanir sem skýrsla hafi verið unnin um.

Í skýrslunni um Kópavogshælið var farið hörðum orðum um aðbúnað fatlaðra barna þar. Þau hafi mörg hver í verulegum mæli þurft að þola líkamlegt og andlegt ofbeldi og vanrækslu.

Í greinargerð með nýja frumvarpinu segir að það sé talin ástæða til að vinna jafn ítarlegar úttektir á fleiri stofnunum og þær sem hafi verið unnar. Næg vitneskja sé fyrir hendi um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og um það sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara. Með skýrslum vistheimilanefndar hafi farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og skapast grundvöllur til að taka á aðgengilegri og einfaldari hátt en áður afstöðu til erinda frá þeim sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fatlað fólk og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.

Gert er ráð fyrir að það kosti ríkið 414-469 milljónir króna að ljúka uppgjöri með sanngirnisbótum. Þessu er skipt í fjóra þætti:

  1. Sanngirnisbætur sem áætlað er að taki til 80–90 einstaklinga. Fram kemur í greinargerðinni að sé miðað við að meðalbótafjárhæð upp á 4,87 milljónir króna megi áætla að heildarkostnaður verði 390–440 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að bæturnar verði að mestu greiddar út á næsta ári.
  2. Kostnaður vegna starfs tengiliðar vistheimila. Gert er ráð fyrir að hann starfi að hámarki í tvö ár og kostnaður nemi 15–20 milljónum króna. 
  3. Kostnaður vegna starfa úrskurðarnefndar. Gert er ráð fyrir að hann verði um 4 milljónir króna fram til ársins 2023.
  4. Kostnaður við aðkeypta sérfræðiráðgjöf. Gert er ráð fyrir 5 milljónum króna í þann kostnað.  

Miðað er við að verkefninu verði að fullu lokið í árslok 2023.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs umfram fjárlög 2020 aukist um 9 milljónir í ár, 402–457 milljónir á næsta ári, 2 milljónir 2022 og eina milljón króna árið 2023.