Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allsherjar breyting á öllu framundan

Mynd: RÚV / RÚV

Allsherjar breyting á öllu framundan

07.10.2019 - 18:08

Höfundar

Nýútkomin bók Andra Snæs Magnasonar rithöfundar fjallar á sérstakan hátt um breytingar sem snerta allt líf á jörðinni. Hann segir að þörf sé á róttækum viðmiðaskiptum svo unnt sé að takast á við loftslagsvandann.

Andri Snær Magnason tekst á við umfangsmikið málefni í nýjustu bók sinni, sem ber titilinn Um tímann og vatnið. Þetta er óvenjuleg bók um þær ógnir sem steðja að jörðinni vegna loftslagsbreytinga. Hún er persónuleg og segir Andri Snær að það hafi einfaldlega ekki verið hjá því komist. „Hlýt ég ekki að taka þessu persónulega?“ spyr hann í viðtali í Silfrinu á RÚV. „Snýst þetta ekki fyrst og fremst um okkur sem persónur eða samfélag?“ Þetta sé sérstök bók þar sem hann leggi allt undir, „allt í kringum mig, í sjálfum mér, vísindin, framtíðina, fortíðina. Ég kjarna þetta í eina heild. Þannig að ég er að nota ömmur mínar og afa, persónulegar sögur og kjarnasögur sem ég á.“

Í bókinni fjallar Andri Snær meðal annars um það hvernig samband okkar við tungumálið sjálft hefur áhrif á hvernig við tökumst á við málið. Hann sér vel hvernig slokkni á fólki þegar hann segist vera að skrifa um loftslagsbreytingar. En þegar hann segist vera að skrifa um tímann og vatnið séu viðbrögðin önnur og betri. „Það er eins og orð þreytist eða hætti að virka. Svo eru orð eins og súrnun sjávar, sem kom í fyrsta skipti fram árið 2006, og margir sem voru búnir að mynda sína pólitísku afstöðu löngu áður en þetta orð varð til. Þetta orð er svona forsendubreyting fyrir allri okkar tilveru, neyslu og iðngreinum. Þannig að hugmyndin er sú að gera okkur grein fyrir hvernig orð hlaðast. Hvernig orð eins og helför verða til, sem eru þrungin merkingu. En svo koma önnur orð sem eru stór og alvarleg og verða mjög stór eftir 100 ár en fara framhjá okkur án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Það verður svona suð. Í rauninni berast ekki 99% af inntaki orðsins til okkar. Hvernig á að fjalla um allt hafið, allt andrúmsloftið og allt veður á jörðinni?“

Eyjafjallajökull kolefnisjafnaði sig

Andri Snær grípur til líkingamáls svo auðveldara sé að átta sig á umfangi málsins. Olíuframleiðsla heimsins náði til að mynda 100 milljón tunnum á dag í sömu viku og svört skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í heiminum kom út og verkfall Gretu Thunberg hófst, í apríl 2019. „Það hefur enga merkingu fyrir okkur en ef við umbreytum því í fljót, þá væri þetta eins og Jökulsá á Fjöllum þar sem hún rennur yfir Dettifoss. Ef maður stendur við slíkt ægiafl og ímyndar sér að þetta hafi ekki áhrif á jörðina þá þarf maður að vera ansi bjartsýnn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið.

Annað dæmi sem hann tekur er að losun gróðurhúsalofttegunda á hverjum degi jafnast á við 600 Eyjafjallajökulsgos – sem hann segir fyrsta umhverfisábyrga gosið. „Eyjafjallajökull kolefnisjafnaði sig með því að stöðva flugumferð rétt á meðan hann gaus. Þannig að í raun jókst losun heimsins ekki vegna gossins heldur minnkaði. Við höldum alltaf að við séum svo smá miðað við þessar jarðsögulegu stærðir [...] En Eyjafjallajökull var 150 þúsund tonn á dag af CO2, sem er slatti á íslenskan mælikvarða, en heimslosunin er 100 milljón tonn. Sem er eins og við séum búin að opna 650 Eyjafjallajökla. Og ekki bara í tvær vikur, heldur allan sólarhringinn, allt árið, alltaf, og hefur aukist ár frá ári á síðustu áratugum. Þannig að ef einhver heldur að 600 standandi eldgos hafi ekki áhrif á lofthjúpinn eða grunnlífkerfi jarðar, ég man ekki hvenær í jarðsögunni voru síðast 650 eldgos í 40 ár samfleytt allan sólarhringinn. Auðvitað hefur þetta áhrif.“

Verkefnið virðist óyfirstíganlegt en Andri Snær segir að svo þurfi ekki að vera. Lausnin getur verið falin í ímyndunaraflinu. „Við þurfum að geta ímyndað okkur að það sé hægt að leysa þetta [...] Vísindamenn hafa talað um að við þurfum í rauninni að slökkva alla þessa elda. Vegna þess að þetta er allt saman eldur, þetta er olía sem brennur, kol sem brennur, gas sem brennur. Það er bara búið að fela alla þessa elda undir húddinu, þetta er orðið svo snyrtilegt og vel hannað. Við þurfum að hætta þessari losun á næstu 30 árum og snúa okkur í aðra orkugjafa,“ segir hann.

Ekki endilega neikvætt að vera kynslóðin sem breytir öllu

Andri Snær segir að það sé kominn tími á ný viðmiðaskipti, á borð við þau sem urðu þegar konur fóru á vinnumarkað eða við iðnbyltingu eða afnám þrælahalds. „Stór viðmiðaskipti þar sem eitthvað verkefni færist inn í miðju alls. Við erum að segja að næstu 30 árin fjalli í rauninni um þetta; að laga hagkerfi okkar að jörðinni, neyslu okkar, lífsstíl, orkuframleiðslu, í rauninni allt sem við gerum miðast við það að við tökum á þessu á næstu 30 árum.“

Hann segir að á 20. öld hafi mannkyn sýnt fram á að hægt sé að skala upp hluti og leysa verkefni með því ákveða að takast á við þau, án þess kannski að vita fyrirfram hvernig það ætlar að gera það. Vissulega sé auðvelt að vera heimsendaspámaður. Skýrslurnar eru svartar en mörg vandamál hafi verið klofin í gegnum söguna og því hægt að sjá vonarglætu. „Þegar ég var í menntaskóla var spurt hvað viltu verða? Við höfðum ekkert æðra markmið,“ segir Andri Snær, annað en að klífa hagkerfisstigann og vera með í veislunni. „En núna má segja, þegar þú talar við ungt fólk, að þá er dálítið margt sem þú þarft að verða. Við þurfum risastóra kynslóð sem tekst á við þetta vandamál í gegnum vísindi, í gegnum siðfræði, í gegnum kjarna alls sem þau munu fást við. Þessi kjarni er ekki  kominn inn í námsefnið, þess vegna eru þessir krakkar í verkföllum; það er ennþá látið eins og það sé 1990 í skólunum. En þetta er miðlæga verkefnið sem allt fjallar um; það er matvælaframleiðsla, það er orkuframleiðsla, það eru fötin okkar, það er hverju við hendum, hvað við endurnýtum. Það er allsherjar breyting á öllu framundan og það er ekki endilega neikvætt að vera kynslóð sem breytir öllu og það getur verið gefandi að taka þátt í breytingum.“

Enn láta raddir á sér kræla um að ástandið sé ekki eins slæmt og látið er með og afneita jafnvel loftslagsvandanum. Andri Snær segir að efasemdarmenn hafi í raun stillt sér gegn vísindunum. „Að hópar stilli sér gegn langtímarannsóknum, gegn mælingum NASA, gegn 100 ára tímalínum á hitastigi, þá ertu komin nær jaðarfræðum, eins og að vera á móti bólusetningum eða að vera í hjálækningum eða öðru slíku þar sem þú hefur engin gögn á bak við þig heldur velur eitthvað eitt dæmi og birtir það sem sönnun fyrir þínum málstað en mundi aldrei standast vísindalega nálgun.“