Andri Snær Magnason tekst á við umfangsmikið málefni í nýjustu bók sinni, sem ber titilinn Um tímann og vatnið. Þetta er óvenjuleg bók um þær ógnir sem steðja að jörðinni vegna loftslagsbreytinga. Hún er persónuleg og segir Andri Snær að það hafi einfaldlega ekki verið hjá því komist. „Hlýt ég ekki að taka þessu persónulega?“ spyr hann í viðtali í Silfrinu á RÚV. „Snýst þetta ekki fyrst og fremst um okkur sem persónur eða samfélag?“ Þetta sé sérstök bók þar sem hann leggi allt undir, „allt í kringum mig, í sjálfum mér, vísindin, framtíðina, fortíðina. Ég kjarna þetta í eina heild. Þannig að ég er að nota ömmur mínar og afa, persónulegar sögur og kjarnasögur sem ég á.“
Í bókinni fjallar Andri Snær meðal annars um það hvernig samband okkar við tungumálið sjálft hefur áhrif á hvernig við tökumst á við málið. Hann sér vel hvernig slokkni á fólki þegar hann segist vera að skrifa um loftslagsbreytingar. En þegar hann segist vera að skrifa um tímann og vatnið séu viðbrögðin önnur og betri. „Það er eins og orð þreytist eða hætti að virka. Svo eru orð eins og súrnun sjávar, sem kom í fyrsta skipti fram árið 2006, og margir sem voru búnir að mynda sína pólitísku afstöðu löngu áður en þetta orð varð til. Þetta orð er svona forsendubreyting fyrir allri okkar tilveru, neyslu og iðngreinum. Þannig að hugmyndin er sú að gera okkur grein fyrir hvernig orð hlaðast. Hvernig orð eins og helför verða til, sem eru þrungin merkingu. En svo koma önnur orð sem eru stór og alvarleg og verða mjög stór eftir 100 ár en fara framhjá okkur án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Það verður svona suð. Í rauninni berast ekki 99% af inntaki orðsins til okkar. Hvernig á að fjalla um allt hafið, allt andrúmsloftið og allt veður á jörðinni?“
Eyjafjallajökull kolefnisjafnaði sig
Andri Snær grípur til líkingamáls svo auðveldara sé að átta sig á umfangi málsins. Olíuframleiðsla heimsins náði til að mynda 100 milljón tunnum á dag í sömu viku og svört skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í heiminum kom út og verkfall Gretu Thunberg hófst, í apríl 2019. „Það hefur enga merkingu fyrir okkur en ef við umbreytum því í fljót, þá væri þetta eins og Jökulsá á Fjöllum þar sem hún rennur yfir Dettifoss. Ef maður stendur við slíkt ægiafl og ímyndar sér að þetta hafi ekki áhrif á jörðina þá þarf maður að vera ansi bjartsýnn.“