Allsber í maníu á mótmælum á Austurvelli

Mynd: RÚV / RÚV

Allsber í maníu á mótmælum á Austurvelli

02.11.2019 - 11:05

Höfundar

Hann var kallaður „strípalingurinn á Austurvelli“ eftir að hafa berað kynfæri sín á Free The Nipple-mótmælum 2015. Kristinn Rúnar var í maníu þegar þetta gerðist en í því ástandi hefur hann meðal annars reynt að stjórna umferð hjá Smáralind og verið handtekinn í brúðkaupi systur sinnar. Hann greinir frá reynslu sinni í nýrri bók sinni, Maníuraunum, og segir viðbrögð fjölmiðla valda vonbrigðum.

Kristinn Rúnar Kristinsson vakti mikla athygli þegar frétt birtist um að hann hefði berað sig á Austurvelli. Tilefnið var Free the Nipple-samstaðan sem þar var haldin, þegar konur beruðu brjóst sín til að sýna samstöðu með fórnarlömbum hrellikláms og mótmæla tvöföldu siðgæði þegar kemur að því að sýna hold á almannafæri. Óumbeðinn stillti Kristinn sér upp fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni og beraði kynfæri sín og brá ýmsum yfir uppátækinu. Ljósmyndari náði mynd af honum nöktum á Austurvelli.

Myndin var birt með frétt á Vísi sem varð samkvæmt Kristni mjög fljótlega ein mest lesna fréttin. Hann segir að myndbirtingin hafi verið að honum forspurðum og það sem ekki fylgdi með upprunalegu fréttinni af málinu var að Kristinn Rúnar var þarna í mikilli maníu. Hann lagðist inn á geðdeild síðar þennan sama dag. Kristinn Rúnar hélt erindið Óumbeðin fjölmiðlaathygli þar sem hann sagði frá þeirri reynslu sinni að vera titlaður sem Strípalingurinn á Austurvelli. 

Ætlaði að sýna samstöðu og beraði sig að neðan

Hann segir í viðtali við Síðdegisútvarpið að myndbirtingin hafi verið mikið áfall fyrir sig og fjölskyldu sína en honum hafi gengið gott eitt til með uppátækinu. „Ég ætlaði að sýna konum samstöðu en það sem ég gerði í raun var að trompa þær,“ viðurkennir hann og segist ekki hafa frétt af myndbirtingunni fyrr en bræður hans heimsóttu hann á geðdeild og sýndu honum skjáskot af fréttinni. „Þeir héldu að ég færi á algjöran bömmer að sjá þetta en það kom þeim á óvart að ég var fyrst um sinn bara frekar ánægður. Seinna varð ég hins vegar reiður yfir að miðillinn skildi gera þetta án þess að spyrja kóng eða prest.“ Hann segir að tilgangur birtingarinnar hafi augljóslega verið að fá flettingar og auglýsingar, á kostnað hans æru.

„Myndin lifði ekki í nema 86 mínútur eða þar til mágur minn útskýrði fyrir fréttamiðlinum hvað hefði verið í gangi. Þá var myndinni skipt út fyrir venjulega mynd af Austurvelli og tilkynning birt innan fréttarinnar svohljóðandi: Myndinni hefur verið skipt út vegna beiðni frá fjölskyldu mannsins, en hann á við geðræn vandamál að stríða.“

Hafði dreymt um að hitta blaðamanninn í þrjú ár

Kristinn sendi blaðamanninum harðort bréf þegar hann sá þessa leiðréttingu. „Ég kynnti mig sem þennan strípaling og sagði að ég gerði mér hreinlega ekki grein fyrir hvor okkar ætti við meiri geðræn vandamál að stríða, ég eða hann, sem birti þetta án þess að spyrja nokkurn einasta mann.“

Þegar hann svo mætti blaðamanninum sem um ræddi á öldurhúsi þremur árum síðar ákvað hann að gefa sig á tal við hann. „Ég hitti hann á Bryggjunni brugghús eftir að hafa dreymt þetta atvik í þrjú ár. Ég stend við barinn og sé hann þar sem hann nálgast einnig barinn,“ rifjar Kristinn upp. Hann kynnir sig fyrir blaðamanninum sem strípalinginn og spyr hvers vegna hann hafi ekki svarað póstinum. „Hann spurði á móti: Hverju átti ég að svara? Ég bið hann bara að skrifa ekki um geðheilbrigðismál því hans skrif ali á fordómum og svo sagði ég honum að hann væri arfaslakur blaðamaður.“

„Það hljómar eins og ég hafi ráðist á manninn“

Hann setur inn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann segir frá atvikinu og að þarna hafi draumur ræst, að hann hafi hitt þennan mann og látið hann vita af sér. Þá var birt önnur frétt sem ekki hugnaðist honum. DV birti frétt um þessa stöðuuppfærslu Kristins og rekur málið nokkuð ítarlega. „Þeir setja það sem frétt að ég hafi veist að blaðamanni á Bryggjunni. Ég hugsaði: Guð minn almáttugur, það hljómar eins og ég hafi ráðist á manninn.“

Kristinn segist hafa rætt í kjölfarið við ritstjórann sem hafi þá svarað honum því til að hann myndi svara þegar hann settist niður. „Þetta er taktík hjá þeim, að segjast vera á hlaupum en gera ekkert meira. Ég sendi honum því skilaboð um kvöldið og sagði: Ég vona að þú hafir sest niður,“ segir Kristinn. „Ég sagðist vilja svör. Sagði að þeir hefðu alltaf verið mínir menn svo ég væri sár yfir þessu.“

Fréttinni var breytt eftir ábendingar Kristins en hann segist telja að ekki hafi verið aðhafst nóg. „Það eina sem hann breytti var að taka það út að ég hefði veist að manni í fyrirsögn. Þetta var enn inni í fréttinni og var ein af topp fimm vinsælustu fréttum dagsins. Mér fannst þetta ljótt og ég var mjög ósáttur.“ Hann segir að það stingi sig sérstaklega að fjölmiðlar geri sér mat úr veikindum hans og noti það gegn honum að hann sé sjálfur opinskár um þau.

Í maníunni líður manni mestum og bestum

Kristinn man sjálfur, öfugt við marga aðra segir hann, flest af því sem hann upplifir í maníu-törnum sínum. Hann hefur rakið þessar raunir í bók sinni Maníuraunum, þar sem hann segir af sinni alkunnu einlægni frá maníum sínum. Hann segir frá því hvernig hann hefur fjórum sinnum á ævinni farið í maníu, árið 2009, 2014, 2015 og aftur árið 2017. Fyrst þegar þetta gerðist segir hann að enginn hafi áttað sig á því hvað væri að gerast, hvorki hann sjálfur né aðstandendur. „Það héldu allir að ég væri á flipptímabili á sýru en í hinum þremur hef ég alltaf vitað það,“ segir hann. Skynsamlegast í stöðunni sé að fara á geðdeild þegar ástandið lætur á sér kræla en hann segir að það sé gaman í maníunni og því erfitt að fá sig til að leita sér hjálpar strax. „Þetta er andstæðan við þunglyndi. Þú ert mestur og bestur og að sigra heiminn og þú vilt ekki slökkva á því þó það sé skynsamlegast.“

Í ástandinu hefur Kristinn Rúnar þrisvar stigið upp í lögreglubíl og fimm sinnum hefur hann verið lagður inn á bráðageðdeild. Þegar hann fór í maníu í fyrsta skiptið var hann strax lagður inn í þriggja vikna nauðungarvistun. „Hún var bæði ólögleg og fáránleg,“ segir hann enda telur hann sig hvorki hafa verið hættulegan sjálfum sér né öðrum. Þegar hann var lagður inn 2014 viðurkennir hann að það hafi verið besta ráðið. „Þá var ég að stjórna umferðinni í Smáralind. Ég bankaði á rúður hjá fólki og reyndi að kenna þeim að keyra,“ rifjar hann upp. 

„Biggi lögga ræddi við mig eins og frændi“

Þegar hann var lagður inn árið 2015 eftir að hafa gert samkomulag við lögreglumann sem hann kannaðist við úr fjölmiðlum. „Biggi lögga kom heim til mín eftir strípalinginn og ræddi við mig eins og ég væri frændi sinn. Ég tengdi við hann því hann er opinber persóna og við samþykktum að ég væri settur í járn enda er ég stór og stæðilegur og hann vildi ekki eiga við mig.“

Tveimur árum síðar var Kristinn handtekinn í brúðkaupi systur sinnar. „Það var eitthvað í gangi hjá mér og ég ekki í ástandi til að vera þarna. Ég sé lögguna, verð hræddur og reyni að hlaupa en er piparúðaður af gamalli vinkonu sem kallar: „Kiddi, Kiddi, stoppaðu!“

Kristinn Rúnar Kristinsson rekur þessar reynslusögur sínar og margar fleiri í bók sinni Maníuraunum: reynslusögu strípalings, en hægt verður að nálgast bókina á Storytel eftir helgi.

Hafdís Helga Helgadóttir og Andri Freyr Viðarson ræddu við Kristin í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.