Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alls ekki sönglaus þjóð

Mynd: Crymogea/Sinfonia.is / Crymogea/Sinfonia.is

Alls ekki sönglaus þjóð

12.11.2019 - 11:33

Höfundar

„Þetta er hljóðheimur aldanna á Íslandi,“ segir Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og höfundur nýrrar bókar um tónlist í íslenskum handritaarfi. Bókin, sem heitir Tónlist liðinna alda - Handrit 1100-1800 er öll hin glæsilegasta. Hún er fyrsta heildstæða sýnisbókin um þennan arf og þar rekur Árni sögu íslenskrar tónlistar frá miðöldum til loka 18. aldar. Hann gerir jafnframt grein fyrir þróun nótnaritunar og söngs í landinu og tæpir á sögu hljóðfæraleiks á Íslandi.

Því var lengi verið haldið fram að Íslendingar hafi verið nærri sönglaus og myndlaus þjóð langt fram eftir öldum, en þessi söguskoðun hefur verið að breytast á síðustu áratugum með auknum rannsóknum á menningu landsmanna.

Árni Heimir Ingólfsson hefur rannsakað íslenska og erlenda tónlistarsögu frá ýmsum hliðum. Hann segir að íslensk tónlist hafi verið blómleg og fjölbreytt fyrr á öldum. Þjóðin var því langt í frá að vera sönglaus.

„Umræðan hefur stundum verið á þann veg að við ættum engar hefðir í þessum efnum og hér hafi ekki verið neitt tónlistarlí eða sönglíf í gegnum aldirnar. Ég er svona svolítið að reyna að afsanna það með þessari bók. Þessar sjö aldir skilja auðvitað heilmikið eftir sig og í raun miklu meira en maður hefði búist við,“ segir Árni í samtali við Víðsjá á Rás 1 en hann hefur sótt í íslensk handrit sem leynast í söfnum víða um heim.

Getið í eyður

Árna telst til að þau tónlistarhandrit íslensk sem varðveist hafi frá þessum sjö öldum séu eitthvað um 100 frá kaþólskri tíð og 50 frá tímabilinu frá siðskiptum og fram til ársins 1800. Hann er sammála því að þetta virki kannski ekki háar tölur en bendir jafnframt á að útfrá þessu þurfi að draga ályktanir um tónlist í landinu á öldum áður.

„Við höfum ekkert annað. Íslendingar kunna að hafa verið duglegir við að skrifa upp nótur, en þeir voru ekki duglegir við að lýsa tónlistariðkun á Íslandi. Það er mjög lítið af frásögnum um það hverjir voru að fást við tónlist, hvar og með hvaða hætti. Þá þarf maður að bera saman við önnur lönd, geta í eyðurnar og púsla öllu saman.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv mynd
Nótnaskriftin er alls konar. Síða úr kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum.

Lágmarks upplýsingar

Þróun nótnaskriftar er heillandi fyrirbæri og Árni Heimir segir að gamlar nótur séu oft snúnar. „Þessar nótur gefa oft ákveðnar lágmarks-upplýsingar sem eru oftar en ekki mjög mikið lágmark. Hrynur og nótnalengd eru til dæmis atriði sem eru mjög óskýr. Nótnaskrift er svo ótrúlega merkilegt fyrirbæri, þessi tilraun til að skrásetja og varðveita hljóðheim. Þessi handrit eru lykill að hljóðheimi Íslendinga yfir margar aldir.“

En hvað er íslenskt og hvað ekki?

Árni Heimir reynir oft að rekja uppruna og stíláhrif tónlistarinnar sem hann fjallar um og sú leit leiðir hann oft út fyrir landsteinanna. „Þetta er erfitt því það er auðvitað gífurlegt magn af tónlist til í heiminum og það getur verið þolinmæðisverk að ætla að rekja eitthvað eitt lítið lag í íslensku handriti yfir í einhverja prentaða ítalska bók frá 1540 eða eitthvað. En þetta er nú samt það sem ég hef verið að fást við síðustu tuttugu árin eða eitthvað slíkt, að finna þessi tengsl milli Íslands og umheimsins. Mér finnst það gífurlega áhugavert og í rauninni áhugaverðara en að segja að eitthvað lag sé þjóðlag. Þessi spurning um það hvernig eitthvað ferðast milli landa er svo heillandi. Hvernig kemst til dæmis eitthvað lítið lag frá Ítalíu, Spáni eða Þýskalandi hingað upp til Íslands og lifir svo kannski hér í 200 ár?“ 

Já, galdur tónlistar er svo sannarlega margslunginn. 

Það er bókaútgáfan Crymogea sem gefur bókina út en henni fylgir lagalisti á Spotify þar sem Kammerkórinn Carmina, einsöngvarar og tónlistarhópurinn Nordic Affect flytja nokkur laganna úr bókinni.  Listinn er hér fyrir neðan en í innslaginu syngur kórinn auk Guðmundar Vignis Karlssonar og Kirstinar Ernu Blöndal.