Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Alls ekki öruggur með sigur

25.03.2012 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Könnun um forsetaframboð sem birt var í gær segir meira um stöðu Ólafs Ragnars Grímssonar en annarra mögulegra frambjóðenda, segir Gunnar Helgi kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði. Stuðningur þriðjungs kjósenda sýni að Ólafur Ragnar sé langt frá því að vera öruggur með sigur.

Engin þeirra þriggja kvenna sem koma næst Ólafi í könnuninni vilja útiloka framboð.

Samtök sem kalla sig Betri Valkost á Bessastaði létu Capacent Gallup gera könnun á fylgi við ellefu einstaklinga sem ýmist hafa lýst yfir forsetaframboði, eða hafa verið nefndir í tengslum við það.

Ólafur Ragnar grímsson forseti hlýtur stuðning þriðjungs kjósenda samkvæmt þessari könnun.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að niðurstaðan ætti að valda núverandi forseta áhyggjum.

„Þó Ólafur hafi verið lengi forseti, og allir þekki hans störf, þá er hann langt frá því að vera öruggur um að vinna í forsetakosningum.“

Ólafur er i fyrsta sæti í þessari könnun - ríflega þriðjungur aðspurðra vill helst sjá hann í embætti. Þrjár konur koma á eftir, Þóra Arnórsdóttir, Elín Hirst og Salvör Nordal. Engin þeirra hefur til þessa lýst yfir framboði.

Fréttastofa náði ekki tali af Salvöru fyrir hádegisfréttir, en Þóra og Elín segjast hvorugar vilja útiloka neitt á þessari stundu.

Gunnar Helgi segir erfitt að túlka niðurstöður um aðra mögulega frambjóðendur í þessari könnun - það sé erfitt að rannsaka kosningar, þegar lítið er vitað um hverjir bjóði sig fram.

„Þannig að í raun og veru segir könnunin ekki svo mikið nema um Ólaf Ragnar. Ef hann hefði fengið nálægt fimmtíu prósentum sem fyrsta val, þá væri hann í góðum málum. En bara með þriðjung, má segja að við ákveðin skilyrði væri hann í verulegri hættu.“

Uppfært: Salvör Nordal útilokar ekki framboð, en segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að á meðan ekki sé ljóst hvort samhliða forsetakosningunum verði jafnframt kosið um stjórnarskrána geti hún ekki tekið afstöðu til framboðs.