Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allir þrír stjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi

28.10.2019 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stjórnarflokkarnir þrír hafa allir tapað fylgi frá síðustu Alþingiskosningum fyrir réttum tveimur árum, miðað við nýjan þjóðarpúls Gallup. Rétt rúmlega helmingur aðspurðra segist styðja ríkisstjórnina en samtals njóta stjórnarflokkarnir 44,3 prósent stuðnings.

Ekki hafa orðið miklar breytingar á stuðningi við flokkana síðan þjóðarpúlsinn var gerður síðast fyrir tæpum mánuði síðan. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur enn mests stuðnings meðal þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi.

Flestir mundu kjósa Sjálfstæðisflokkinn

22,7 prósent aðspurðra segjast mundu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga nú. Flokkurinn hlaut 25,3 prósent atkvæða í kosningunum 28. október 2017. Vinstri græn fengu næst mest kjörfylgi í kosningunum, með 16,9 prósent greiddra atkvæða á landsvísu. Forystuflokkurinn í ríkisstjórninni nýtur nú stuðnings 13,4 prósent kjósenda ef marka má þjóðarpúlsinn.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup

Þjóðarpúls Gallup 28. október 2019 samanborið við kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
25,3%
22,7%
Samfylkingin
12,1%
17,3%
Vinstri græn
16,9%
13,4%
Miðflokkurinn
10,9%
11,5%
Viðreisn
6,7%
10,3%
Píratar
9,2%
9,0%
Framsóknarfl.
10,7%
8,2%
Fl. fólksins
6,9%
4,6%

Aðrir
0%
3,0%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. september til 27. október 2019. Heildarúrtaksstærð var 9.798 og þátttökuhlutfall var 53,5%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,2-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Fylgi við Framsóknarflokkinn hefur einnig minnkað síðan í kosningunum. 8,2 prósent aðspurðra í þjóðarpúlsinum segjast mundu kjósa flokkinn ef gengið væri til kosninga nú. Í kosningunum 2017 fékk flokkurinn 10,7 prósent atkvæða.

Samfylkingin hástökkvari frá kosningum

Ef niðurstöður kannanna eru bornar saman við kosningaúrslitin 2017 sést að Samfylkingin hefur vaxið mikið. Samfylkingin mælist nú með 17,3 prósenta stuðning. Flokkurinn hefur mælst næststærstur í þjóðarpúlsi Gallup síðustu mánuði.

Miðflokkurinn mælist með litlu meiri stuðning en í kosningum. Í nýjum þjóðarpúlsi segjast 11,5 prósent aðspurðra styðja flokkinn. Miðflokkurinn fékk 10,9 prósent greiddra atkvæða á landsvísu í Alþingiskosningunum 2017.

Pakkinn er nokkuð þéttur í kringum 10 prósenta fylgið, ef svo má að orði komast. Viðreisn hefur notið mun meiri stuðnings undanfarin misseri en í síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 6,7 prósent atkvæða. Viðreisn mælist nú með 10,3 prósent fylgi.

Píratar fengju níu prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Það er 0,2 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum. Flokkur fólksins rekur svo lestina með 4,6 prósenta stuðning í þjóðarpúlsinum. Flokkurinn fékk 6,9 prósent í Alþingiskosningunum 2017.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV