Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allir nema Ólafur Helgi vantreysta Haraldi

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Átta af níu lögreglustjórum á landinu bera ekki traust til Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og formaður Lögreglustjórafélags Íslands, í samtali við fréttastofu. Hann lét dómsmálaráðuherra vita að hann myndi lýsa þessu yfir áður en hann veitti RÚV viðtalið.

Úlfar segir að samstarf lögreglustjóra við ríkislögreglustjóra síðustu fimm ár hafa verið þyrnum stráð og borið á samskiptaleysi. „Lögreglustjórar hafa verið mjög áhugasamir um ýmsar breytingar og yfirstjórn ríkislögreglustjóra hefur verið treg í taumi,“ segir Úlfar.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri veitti Morgunblaðinu viðtal fyrr í þessum mánuði Úlfar segir það vera mat lögreglustjóra í landinu, allra nema Ólafs Helga Kjartanssonar á Suðurnesjum, að ríkislögreglustjóri geti ekki leyft sér að segja það sem fram kemur í viðtalinu. „Hann talar um spillingu innan lögreglunnar. Hann talar um að ef hlutir fari ekki eins og hann hugsar þá eigi hann eftir að segja frá. Þetta er óábyrgt tal og sæmir ekki manni í þessari stððu,“ segir Úlfar. Staðan sem upp er komin núna sé bagaleg og skaði lögregluna. Sá sem hafi skaðað lögregluna i þessu tilviki sé ríkislögreglustjóri.  

„Ég er formaður Lögreglustjórafélags Íslands en tala fyrir hönd átta af níu lögreglustjórum landsins. Ólafur Helgi kjartansson er ekki í hópi þessa lögreglustjóra,“ segir Úlfar. „Við berum ekki traust til ríkislögreglustjóra,“ bætir hann við.

Úlfar segir samstarf lögreglustjóra og -embætta í landinu hafa verið með miklum ágætum. „Þannig að við könnumst ekki við umræðu um togstreitu um fjármuni og valdabaráttu. Tal ríkislögreglustjóra um spillingu, hann hefur ekki borið þetta á borð fyrir okkur lögreglustjóra. Þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig við sjáum samstarf við ríkislögreglustjóra halda áfram. Við getum talað um óstarfhæfni. Ríkislögreglustjóra í þessu tilviki. Það er viðvarandi og skyggir orðið á starfsemi þerra stofnan sem hann veitir forstöðu. Þar er ágætis fólk sem vinnur að góðum málefnum. Þannig að ég sé ekki þá stöðu í dag að þetta geti gengið mikið lengur,“ segir Úlfar.

Spurður hvort hann telji að Haraldur Johannessen þurfi að víkja segir Úlfar að málið sé á borði ráðherra. Nokkrir lögreglustjórar hafi átt hreinskiptinn fund með ráðherra í síðustu viku.

„Ég var þar með fullt umboð frá þessum átta lögreglustjórum af níu. Þau hafa allar þær upplýsingar sem þau þurfa að hafa til að leysa úr þessum hnút sem nú er,“ segir Úlfar.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV