Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Allir komnir í land við Jökulsárlón

18.02.2016 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bruun
Öllum ferðamönnum sem gengu um á ísnum á Jökulsárlóni hefur verið komið í land. Lögregla og björgunarsveit voru kölluð út fyrr í dag þegar nokkrir ferðamenn voru komnir langt út á ísinn á lóninu. Sumir voru komnir langleiðina inn að jökli en ísinn á lóninu er mjög varasamur.

„Það voru menn hérna á staðnum sem tóku málin í sínar hendur og komu fólkinu í land áður en við komum á staðinn,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar. „Við verðum þrátt fyrir það með vakt á svæðinu, ásamt lögreglu, fram á kvöld.“

Jónas segir að frábært verður sé á staðnum og að lónið sé lagt að hluta sem geri það að verkum að fólk komist út á ísinn sem getur verið mjög varasamur. „Fólk áttar sig heldur ekki á því að það gætir flóðs og fjöru í lóninu sem gerir aðstæður enn hættulegri og ís getur auðveldlega brotnað í burt.“

Samkvæmt leiðsögumönnum sem voru á svæðinu í dag gekk nokkur tugur ferðamanna út á ísinn á lóninu. Þar á meðal börn. Líkt og meðfylgjandi myndir sýna er ekki alltaf um samfellt íshellu að ræða heldur gekk fólk einnig um á lausum ísflekum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bruun