„Allir heimsins herir gætu ekki sigrað kórónuveiruna“

Mynd: RÚV / RÚV

„Allir heimsins herir gætu ekki sigrað kórónuveiruna“

22.03.2020 - 09:12

Höfundar

„Samfélagið okkar er í svo mikilli fegurð að rísa á fætur. Við sjáum fólk hlúa að þeim sem á höllustum fæti standa," segir Bjarni Karlsson prestur og sálgæslumaður sem telur kórónuveiruna, skæð sem hún er, kenna manninum mikilvæga lexíu. Heimsfaraldurinn sé stríð sem ekki verður unnið með vopnum heldur samstöðu.

Reykjavík er að mestu lögst í dvala. Göturnar eru tómar, þögn á öldurhúsum bæjarins og búðareigendur hafa skellt í lás. Um víða veröld blasir við lítt þekktur veruleiki, fólk heldur sig heima við og bíður þess að hættuástandið líði hjá. Á tímum sem þessum er þessi samstaða sérstaklega mikilvæg, og brýnt að fólk hlúi vel að hvert öðru, segir Bjarni Karlsson prestur og sálgæslumaður. Hann er ómyrkur í máli þegar hann talar um syndir mannsins gagnvart fósturjörðinni og segir að kórónuveiran ráðist gegn annarri þrjúhundruð ára veiru sem er hugmyndin um einstaklinginn. Víða um heim sé maðurinn í græðgi sinni að tapa mennskunni en eina vopnið gegn heimsfaraldrinum er að finna hana aftur, sýna hvert öðru stuðning og náttúrunni virðingu. Bjarni var viðmælandi Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Bjarni segir Íslendinga heppna að eiga að þá leiðtoga sem stýri þjóðarskútunni í gegnum ólgusjóinn og takist að standa í lappirnar og halda haus þrátt fyrir óvissuástandið. Þau sendi skýr skilaboð út í samfélagið. Okkur hinum sé sérstaklega mikilvægt að gera tvennt, að hafa stjórn á okkur sjálfum og gera það sem í okkar valdi stendur til að passa upp á náungann. „Við erum að lifa tíma þar sem við megum ekki svíkja hvert annað og við megum ekki yfirgefa hvert annað,“ segir hann og brosir. „Þegar við sameinumst um þetta hnikast lífið í átt að lausnum og lausnirnar til okkar. Þegar við vitum ekkert hvert við erum að fara og óvissan er mikil þá kemur mennska okkar í ljós, möguleikinn á hinni sönnu manneskju.“

Hlakkar til að sjá lærdóminn sem mannkynið muni draga af ástandinu

Nú sé veröldin að ganga í gegnum uppnámstíma og Bjarni segist hlakka til að sjá lærdóminn sem mannkynið muni draga af þeim. „Ég er feginn að ég skuli fá að lifa þetta,“ segir hann þótt hann sé vitaskuld ekki feginn heimsfaraldrinum sem slíkum. „En ég hef lært það af lífinu að ganga í gegnum óvissu og í gegnum kvíða og depurð og þjáningar. Þá lærir maður svo gríðarlega margt. Þjóðinni er að fara svo mikið fram.“ Íslendingar búi að þeirri reynslu að hafa áður staðið af sér ýmsa storma og hörmungar og nýtist reynslan af áfallinu 2008 sem dæmi. „Ef við værum ekki búin að ganga í gegnum hrunið ættum við ekki það sem við eigum sem þjóð. Við erum stundum að tönglast á að við höfum ekki lært neitt en við lærðum helling. Við lærðum að setja heiðarleg orð á þjáningu og núna þurfa þau sem þjást að heyra þau.“ 

Samfélagið þarf að halda utan um þá sem eru einir og hræddir

Margir eru hræddir við faraldurinn, fólk sem er til dæmis með heilsukvíða og þeir sem til dæmis veikir eru fyrir og hafa ástæðu til að vera áhyggjufullir. Auk þess finni margir fyrir fjárhagslegu óöryggi í núverandi ástandi og því fylgi mikill kvíði. Þessir hópar þurfa sem aldrei fyrr, að sögn Bjarna, að finna að samfélagið sé vitni að þjáningu þeirra og ótta. Að auki sé ekki síst mikilvægt að halda utan um þá sem upplifi einsemd í sóttkví og samkomubanni. „Maður er manns gaman. Það er enginn yfir það hafinn að þrá og þurfa fólk og það er svo margt fólk núna sem á hallasta fæti stendur heilsufarslega sem er líka einangrað,“  segir hann alvarlegur. „Það er svo erfitt að vera einn.“  

Fólk hafi náttúrulega þörf fyrir félagsskap og snertingu og fái það ekki að vera í kringum sína nánustu magnist oft kvíðinn og depurð færist yfir. Margir eru í þeirri stöðu nú að mega ekki hitta fólkið sitt vegna smithættu og það valdi vanlíðan enda fylgi þörfin fyrir nánd manninum frá blautu barnsbeini. „Börn til dæmis fæðast með 30 sentimetra fókus svo að þegar barnið er á brjósti móður sinnar horfir það í augu hennar.“  Nándin sé því í eðli okkar. „Ekki veikleiki heldur styrkleiki.“ 

Nú þýði ekki að kalla til Nató

Í menningu okkar sé hins vegar tilhneiging til að fjarlægjast þessa grunnþörf manns. „Fyrirtækin vilja þetta. Við viljum ekki samskipti heldur viðskipti. Það er eins með bankann. Út frá hugmynd um hagvöxt erum við búin að reikna út að það sé best að hirða dúninn en umgangast fólk eins og æðakollur,“  segir hann kíminn. „Allt í einu byrjar maður að upplifa það að þurfa samskipti og vera þyrstur í tengsl sem veikleika.“ 

Hann hefur trú því á að mannsandinn muni rísa upp úr þessum aðstæðum og breyta til, „því núna erum við bara að lifa náttúruhamfarir. Ekki manngerða eymd eða andstyggð. Við erum að lifa hamfarir sem lýsa sér þannig að vopnin eru slegin úr höndum okkar.“

Í slíku ástandi sé ekki hægt að treysta á hernaðarvald eins og í manngerðu stríðsástandi. „Nú þýðir ekki að kalla til Nató. Við erum með svo mikinn herstyrk að við gætum eytt jörðinni sex sinnum, við höfum dýrkað hraða og afl en núna gerir það ekki neitt. Allir herir heimsins gætu ekki sigrað kórónuveiruna.“

Hugmyndin um einstaklinginn versta hugmynd jarðarsögunnar

Bjarni bendir á að það sé önnur veira á kreiki sem sé ekki síður hættuleg. Sú veira sé um þrjú hundruð ára gömul og í daglegu tali sé hún kölluð nútíminn. „Þessi veira heitir mannmiðlægni og einstaklingshyggja,“ segir hann. „Hugmyndin um manninn sem aðal og einstaklinginn er ekki bara versta hugmynd mannkynssögunar heldur í jarðsögunni. Hún hefur borið þann ávöxt að við sitjum uppi með að jöklar bráðna, haf rís og súrnar og líffræðilegur fjölbreytileiki jarðarinnar fölnar.“ Heimurinn sé því ekki sami staður og fyrir eyðileggingu nútímans.

Mynd með færslu
 Mynd: kirkjan.is - Garðakirkja
Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni eru samheldin hjón

Munu barnabörnin hafa ástæðu til að fjölga sér?

Bjarni og kona hans, Jóna Hrönn Bolladóttir prestur, eru orðin amma og afi og una þau því hlutverki vel. Nýverið þegar Bjarni lék mömmó með barnabörnunum eins og hann gerir oft þyrmdi hins vegar yfir hann þegar hann áttaði sig á þeirri framtíð sem biði mögulega grunlausra barnabarnanna sem léku sér með dúkku. „Þau voru mamma og pabbi og ég var frændi. Það var verið að gefa að borða og baða og það var yndislegt,“ rifjar Bjarni upp. „En af hverju förum við í mömmó? Það er vegna þess að börnin eru að undirbúa sig undir veruleikann.“ Og Bjarni verður  klökkur þegar hann talar um barnabörnin. „Þarna voru þessi afkvæmi mín, þessi barnabörn sem ég elska út af lífinu, að æfa sig fyrir föður- og móðurhlutverkið. Ég sit þarna, er að horfa á þau og fer að hugsa: Munu þau hafa ástæðu til að vilja fjölga sér?“

Síðustu fimmtíu ár hafi menn komið fram við náttúruna eins og hún sé ekki annað en hráefni fyrir manninn og hans eigin. „Við erum búin að koma hlutunum þannig fyrir. Þetta er hópsefjun og valdagræðgi sem hefur átt sér stað. Múgheimska sem gerir það að verkum að við getum ekki vitað að þessi börn muni telja sig hafa ástæðu til að auka kyn sitt í þessum heimi.“

Veiran knýr hómó sapíens til að haga sér í boðinu

Þegar þau hjónin voru yngri og að eignast sín börn hafi ekki hvarflað annað að þeim en að það væri sjálfsagt. Þau sáu framtíð í þessari veröld og voru tilbúin að fæða börn í þann heim sem þau þekktu. „Við fengum að lifa það að breytast úr því að vera ungmenni í að verða foreldrar og sjá þennan heim sem vettvang fyrir börnin okkar og vinna að þeirra heill. Vona að börnin myndu auka kyn sitt og gleðjast yfir að eignast maka,“ segir hann. „En nú horfi ég á barnabörnin og veistu, ég veit þetta ekki.“

Því sé ekki seinna vænna en að vakna til lífsins og kveikja á því að það að vera manneskja sé að vera þátttakandi í vistkerfi. Veiran sé að segja manninum að fara að haga sér í boðinu. Maðurinn kemst ekki endalaust upp með ósiðina og þarf nú að „yfirgefa þessa mannmiðlægni og gerast lífmiðlæg.“ Nú megi víða sjá kynslóðir sameinast og vakna til lífsins, átta sig á því sem mikilvægt er í heiminum. „Samfélagið okkar er í svo mikilli fegurð að rísa á fætur. Við sjáum fólk greina samhengi sitt og hlúa að þeim sem á höllustum fæti standa," segir hann. „Það sem er svo magnað við þessa COVID-veiru er að hún ræðst á mannmiðlægnina og einstaklingshyggjuna. Þetta er veira gegn veiru. Við þurfum að haga okkur, sýna háttvísi, virða mörk og sýna umhyggju ef vistkerfið á ekki að gefast upp á okkur.“

Samheldin hjón sem vinna saman og hugsa saman

Bjarni er stofnmeðlimur Píeta-samtakanna sem eru sjálfsvígsforvarnasamtök fyrir fólk sem er að missa lífsviljann og lífsvonina. Hann leiðir hóp sem heitir Feður, bræður, synir og vinir. Þar koma reglulega saman karlar sem eiga það sameiginlegt að eiga einhvern nákominn sem þeir hafa misst í sjálfsvígi. Þeir hittast mánaðarlega í Píetahúsinu en vegna samkomubanns hafa þeir tímabundið fært fundina í Grasagarðinn í Laugardal. Bjarni rekur einnig sálgæslu- og sálfræðiþjónustuna Haf með Andra syni sínum en tekur líka hlutverki sínu sem prestfrú í Garðabænum alvarlega. Hann og Jóna Hrönn kona hans eru mjög samheldin og vinna bæði og hugsa saman á göngum um hverfið. „Við förum reglubundið í göngutúra um Laugardalinn. Erum kannski að tuða fyrstu 20 mínúturnar og svo eftir 20 mínútur, í sömu beygjunni, hættum við að tuða og við leiðumst og spjöllum,“ segir hann glettinn. „Þannig vinnum við saman og það er dásamlegt.“

Rætt var við Bjarna Karlsson í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þöggun er svo algeng í fjölskyldum“

Menningarefni

„Það verður aldrei auðvelt að tala um hana“