Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allir farþegar komnir út úr rútu sem valt við Þingvelli

03.01.2020 - 00:00
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Einn hefur verið fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir að rúta valt nálægt þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum á tólfta tímanum í kvöld. Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir að mun betur hafi farið en óttast var í fyrstu. Rútan fór alveg á hliðina.

Búið er að flytja alla sem voru í rútunni, tæplega tuttugu manns, á þjónustumiðstöðina til athugunar. Þar er verið að huga að fólkinu og forgangsraða eftir meiðslum sem öll virðast lítilsháttar. Haukur segir að allir í rútunni hafi verið í belti, það sé engin spurning að það hafi bjargað því að ekki fór verr. Tveir dælubílar og fimm til sex sjúkrabílar voru sendir á vettvang bæði frá Reykjavík og Suðurlandi. „Það er búið að tæma vettvang og stabilísera. Engin mengun er frá rútunni og þetta lítur allt  nokkuð vel út," segir Haukur í samtali við fréttastofu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV