Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Allir farþegar komnir í flugstöðina

10.11.2013 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðrið veldur töfum á Keflavíkurflugvelli. Farþegar nokkurra flugvéla sem lentu í Keflavík síðdegis þurftu sumir að bíða hátt í tvær klukkustundir um borð vegna veðursins. Þeir eru allir komnir í hús núna, að sögn Friðþórs Eydals hjá Isavia.

Flugfarþegi sem kom frá Kaupmannahöfn síðdegis segir að hann hafi þurft að bíða í um klukkutíma í vélinni áður en farþegum var hjálpað frá borði með aðstoð björgunarsveita. Hann segir að vélin hafi hrist svo mikið að fólk hafi orðið sjóveikt og kastað upp. Fólkið hefur enn ekki fengið töskur sínar afhentar því ekki er hægt að komast í farangursrýmið vegna veðurs. Friðþór Eydal segir að unnið sé að afgreiðslu vélanna. Í þessu tilfelli hafi töskuafgreiðsla sennilega dregist vegna þess að farþegarnir voru fluttir með rútu í flugstöðina og flugvélinni í framhaldinu lagt við flugstöðina. 

Flugvél sem var á leið til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn var snúið við vegna veðurs og lendir í Glasgow upp úr klukkan sex. Guðjón Arngrímsson segir að farþegarnir gisti á hóteli í borginni í nótt og komi hingað til lands síðdegis á morgun. Kvöldflugi flugfélagsins frá Ósló, Stokkhólmi, Lundúnum og Kaupmannahöfn hefur verið seinkað framyfir miðnætti.  

Brottförum til Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada hefur verið frestað til  að minnsta kosti klukkan  18:30-19 í kvöld.