Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allar rúður á austurhlið bæjar í Vatnsdal sprungu

14.02.2020 - 12:44
Mynd úr safni. - Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Töluvert tjón hefur orðið á tveimur bæjum í Húnavatnssýslum, öðrum í Vatnsdal og hinum í Víðidal, í fárviðrinu sem nú gengur yfir landið. Á Norðurlandi hefur bætt töluvert í vindinn á síðustu klukkustund.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, sagði í viðtali í aukasjónvarpsfréttatíma á hádegi að mikið tjón hafi orðið í Vatnsdal þar sem útihús, vélar og íbúðarhús hafa skemmst. Viðbragðsaðilar og björgunarsveitir séu að reyna að komast á vettvang en gengur illa út af veðri.

Allar rúður á austurhlið hússins sprungu, en brotnuðu ekki, að sögn Höskuldar Erlingssonar, aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra. Íbúar hússins halda til á þeim stað í húsinu sem þykir öruggastur. Höskuldur segir að beðið sé átekta með að senda hjálp, það verði gert um leið og veður leyfir en að enginn sé í hættu.  

Stór hluti þaks á fjárhúsi á bæ í Víðidal, næsta dal við Vatnsdalinn, fauk af og íbúarhús skemmdist. Þar heldur fólk líka kyrru fyrir. Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga verður líklega send þangað, að sögn Höskuldar. Ekki er hægt að leggja í hann strax, þar sem aftakaverður geisar enn.

Vindurinn datt aðeins niður á Norðurlandi vestra fyrir hádegi en er nú að færast í aukana. Höskuldur segir að veður sé víða mjög slæmt inn til dala, til dæmis hafi verið stórhríð í Svartárdal.