Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Allar leiðir inn og úr Akureyrarbæ vaktaðar

27.07.2017 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Akureyrarbær ætlar að fjölga eftirlitsmyndavélum og vakta allar leiðir inn í bæinn. Bæjarstjóri segir umræðu um eftirlitsmyndavélar í vetur hafa haft áhrif á ákvörðunina. Keyptar verða níu nýjar myndavélar og þar af fara fimm í miðbæinn.

Mál Birnu Brjánsdóttur hafði áhrif

Í dag eru tvær eftirlitsmyndavélar á vegum Akureyrarbæjar í miðbænum: á Sýslumannshúsinu og við Strandgötu, en þær verða endurnýjaðar og þrjár til viðbótar settar upp.  Uppsetning og rekstur nýju vélanna verður samstarf Akureyrarbæjar, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Neyðarlínunnar.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir að lengi hafi verið rætt um að fjölga vélum og ákvörðunin verið tekin eftir umræðu sem spratt upp í kringum mál Birnu Brjánsdóttur í vetur.

„Og við tókum þetta alvarlega. Það hefur sýnt sig að þær hafa forvarnargildi og öryggisgildi og leyst jafnvel úr málum,” segir hann.

Níu myndavélar og fimm í miðbænum

Eftirlitsmyndavélarnar á vegum Akureyrarbæjar verða níu talsins. En myndavélarnar í bænum eru þó töluvert fleiri, á vegum einkaaðila og fyrirtækja.

Lögreglan kom með tillögur að staðsetningu nýju vélanna og lagði fram til bæjarins. Fimm vélar verða í miðbænum á Akureyri, ein við gatnamót Borgarbrautar og Hlíðarbrautar, ein við Vaðlaheiðargöng, ein við flugvöllinn og ein við norðurenda bæjarins. 

Einungis notað í rannsóknarskyni

Bærinn sér um kaup og rekstur á vélunum, sem kosta á aðra milljón króna, en lögreglan ein hefur aðgang að upptökunum. 

„Þetta er einungis notað í rannsóknarskyni vegna mála sem upp koma og á engan annan hátt,” segir Eiríkur.