Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Álíka trúverðugt og skýring Sigmundar Davíðs“

14.09.2019 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerði umræðuna í kringum þriðja orkupakkann að umtalsefni í ræðu sinni á flokksráðs- og formannafundi flokksins á Hótel Reykjavík Nordica í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einhuga um málið og meðal annars kaus þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson gegn innleiðingu pakkans á Alþingi. Þórdís Kolbrún fagnaði þó umræðunni þó að um erfitt tímabil hafi verið að ræða.

„Það fylgir því engin gleði að lenda í ágreiningi við samherja sína. Út úr því kemur einfaldlega enginn sigurvegari. Við slógum engar mótbárur eða spurningar út af borðinu. Við tókum þær alvarlega og ég vil beinlínis hrósa þeim sem settu fram spurningar og voru með efasemdir. Því niðurstaðan var vandaðri athugun á málinu og breytingar á afgreiðslu málsins sem voru til bóta,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þrátt fyrir að orkupakkinn hafi verið innleiddur undirstrikaði Þórdís þó að það sé stutt milli stríða í stjórnmálum.

„Það er ekki spurning hvort eða hvenær pólitískir andstæðingar halda áfram að snúa út úr. Það eina sem er nokkuð víst er að það verður álíka trúverðugt og skýring Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að hann hafi stofnað sérstakan starfshóp um sæstreng í samvinnu við David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Breta, af þeirri einu ástæðu að hann hafði bara svo miklar efasemdir um málið.

Það er svona eins og Katrín Jakobsdóttir hefði ákveðið með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, að stofna starfshóp til að kanna fýsileika þess að staðsetja kjarnorkusprengjur í Keflavík. Bara af því að hún hefur svo miklar efasemdir um málið,“ sagði Þórdís Kolbrún og fékk lófaklapp fyrir úr salnum.

Þá þakkaði Þórdís fráfarandi ritara flokksins, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir „vel unnin og kröftug störf í þágu flokksins undanfarin ár.“ Nýr ritari flokksins verður kjörinn í dag en þar eru þau Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs í Garðabæ, og Jón Gunnarsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, í framboði.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV