Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Álfheiður óskar gagna frá lögreglu

27.02.2012 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir fullyrðingar Geirs Jóns Þórissonar um að þingmenn hafi stýrt mótmælendum á Austurvelli fyrir þremur árum fráleitar. Hún hefur skrifað lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskað eftir gögnum um rannsókn þessa máls.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn í Reykjavík sagði í fjölmiðlum í gær að hann hefði fengið staðfesta vitneskju um að þingmenn hefðu verið í sambandi við mótmælendur á Austurvelli og að hann teldi að mótmælendum hefði verið stýrt. Þegar umræða um þetta kom upp á sínum tíma var nafn Álfheiðar Ingadóttur nefnt. Hún segir að í þessum orðum felist alvarlegar aðdróttanir sem hún muni skoða sérstaklega. 

„Þetta er fráleitur málflutningur, á sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum enda held ég nú að nokkirir tugir ef ekki hundruð mótmælenda hafi stigið fram í gær og lýst þessu beinlínis sem lygi ef ekki einhverju meiru. Ég hef þegar skrifað lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu bréf og óskað eftir upplýsingum um þessa rannsókn sem yfirlögregluþjónninn skýrði frá og jafnframt óskað eftir öllum gögnum og upplýsingum sem kynnu um mig að vera í slíkri rannsókn.“

Álfheiður segir að í orðum Geirs Jóns felist þó enn alvarlegri aðdróttanir, að valda meiðslum á fólki. „Það er ekki hægt að sitja undir aðdróttunum af þessu tagi frá yfirlögregluþjóni í Reykjavík.“