„Aldrei of seint að vinna úr áföllum“

16.01.2020 - 20:57
Mynd: RÚV / RÚV
Snjóflóðin sem féllu á Flateyri á miðvikudagskvöld geta rifjað upp minningar frá því fyrir aldarfjórðungi, en 20 manns létust þegar flóð féll á þorpið árið 1995. Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur LSH, segir að nú gæti verið tækifæri fyrir fólk að vinna úr fyrri áföllum.

„Þegar eitthvað minnir svona sterklega á það, ekki bara staðsetningin heldur líka í tíma, þá eru alls kyns kveikjur sem koma upp. Mannskepnan er þannig byggð að við búum yfir minningunum og þó það sé langt um liðið þá geta kveikjur sem koma óboðið til okkar rifjað upp eitthvað sem gerðist fyrir löngu síðan,“ sagði Berglind í Kastljósi í kvöld.

„Það er mikilvægt fyrir fólk að leyfa sér að ganga í gegnum það að rifja upp og sannarlega getur það verið erfitt, en á sama tíma þá er það ekki endilega neikvætt. Það getur verið tækifæri fyrir suma, sem eiga óunnin áföll, að grípa tækifærið og vinna með það núna. Þetta er einstaklingsbundið, en gæti skapað ný tækifæri fyrir þá einstaklinga,“ segir Berglind.

Hún segir áfallahjálp vera allt önnur nú en hún var fyrir aldarfjórðungi þegar fyrri áföllin dundu yfir.

„Á 25 árum hefur þekkingunni fleygt gríðarlega fram í áfallahjálp. Við vitum að það er hægt að vinna úr áföllum, og það er vitneskja sem er mikilvægt að hafa í huga. Og það er aldrei of seint. Það skiptir ekki máli hversu langt er liðið. Það er aldrei of seint.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi