„Ég er næstum hundrað ára. En frænka mín varð eldri en hundrað ára, þannig að ég á mörg ár framundan,“ segir Ieada. „Þannig að ég verð að skipuleggja alls konar skemmtilega hluti til að sjá og upplifa, vegna þess að kannski á ég tíu ár eftir ólifuð. Ef ekki, þá það, en ef ég á tíu ár eftir þá ætla ég ekki að sóa þeim.“
Frá því að hún var barn hefur Ieda látið sig dreyma um að geta flogið. Hún ákvað því að reyna svifvængjaflug. „Ég verð aldrei of gömul til að reyna eitthvað nýtt,“ segir hún.
Trúlofuð eftir 48 klukkustunda kynni
Ieda ólst upp í Reykjavík og á Vopnafirði. Hún flutti til Bandaríkjanna eftir að hafa kynnst bandarískum hermanni á stríðsárunum. „Hann hét Delbert Herman, en allir hér heima kölluðu hann bara Hermann,“ segir Ieda.
Tveimur sólarhringum eftir að þau kynntust voru þau trúlofuð. „Heyrðu, við vorum gift 70 ár, það var rétt,“ segir Ieda, en þau Delbert voru saman allt þar til hann lést árið 2015. Á stríðsárunum var bandarískum hermönnum óheimilt að kvænast íslenskum konum, en Ieda og Delbert voru fyrsta parið sem fékk leyfi til að gifta sig.