Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Aldrei mælst meiri desembersnjór í Reykjavík

02.12.2015 - 12:09
Mynd: Björn Guðjónsson / Björn Guðjónsson
Aldrei hefur mælst dýpri snjór í desembermánuði í höfuðborginni en í morgun. Þá mældist 42 sentimetra jafnfallinn snjór. Það er níu sentimetrum meira en árið 2011 en þá var slegið met í desembermánuði þegar snjódýpt mældist 33 sentimetrar.

Að sögn Einars Magnúsar Einarssonar, veðurfræðings hjá Belgingi, hefur þó áður mælst meiri snjór í Reykjavík. Það var í janúar 1937.  Þá var 55 sentimetra jafnfallinn snjór. Viðbúið er að 42 sentimetra metið verði slegið því spáð er áframhaldandi snjókomu næstu daga. 

Einar segir viðbúið að áfram verði þungfært í höfuðborginni, sérstaklega gæti snjóað mikið á föstudaginn. Einar bendir á að árið 1937 hafi snjódýptin verið mæld annars staðar í borginni. Veðurstofan er núna til húsa við Bústaðaveg og þar er snjódýptin mæld.

Sorphirða úr skorðum
Vegna snjóþyngsla hefur sorphirða gengið erfiðlega í Reykjavík. Í frétt á vef borgarinnar eru borgarbúar hvattir til að moka frá tunnum og kanna hvort hurðir og lásar á sorpgeymslum séu frosin. Öll tiltæk snjómoksturstæki séu að hreinsa götur. Ekki hafi reynst unnt að ljúka sorphirðu í Vesturbæ í gær enda hafi aðstæður verið með afbrigðum slæmar vegna veðurs. Þá sé í dag unnið að því að losa úr tunnum miðborginni og á morgun í Laugardal og Háaleiti.

Á vef Veðurstofunnar er að finna fróðleiksmola um snjódýptarmælingar. Og á vef Ríkisútvarpsins er að finna pistil um snjókomu og málfar.