Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei fleiri mál hjá Persónuvernd en í fyrra

15.09.2019 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Persónuvernd hefur aldrei nýskráð fleiri mál en í fyrra þegar ríflega tvö þúsund og fjögur hundruð mál voru skráð. Frá þessu er greint í ársskýrslu Persónuverndar.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, gerir tímamót í vitund almennings um persónuvernd að umtalsefni í pistli sínum í ársskýrslu sem kom út í síðustu viku. Fjórfalt fleiri mál bárust Persónuvernd í fyrra en á upphafsdögum hennar árið 2002. Suma mánuði í fyrra mátti greina hundrað prósent fjölgun erinda sem bárust miðað við fyrra ár.

Nær helmingur þeirra mála sem skráð voru í fyrra voru fyrirspurnir, álit og umsagnir, eða 48 prósent. Tólf prósent mála voru vegna vísindarannsókna, tíu prósent vegna tilkynninga, fimm prósent vörðuðu erlent samstarf, fjögur prósent voru kvartanir, kærur og úrskurðir, þrjú prósent tilkynningar um öryggisbresti. 18 prósent málanna vörðuðu aðra þætti.

 

Um mitt ár 2018 tók ný evrópsk reglugerð um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gildi í Evrópu. Þar eru réttindi einstaklinga aukin gagnvart öðrum sem vinna með persónuupplýsingar.

Umfjöllun fjölmiðla um persónuverndarmál jókst einnig gríðarlega árið 2018 frá árinu áður, því meira en tvöfalt oftar var fjallað um persónuverndarmál í íslenskum fjölmiðlum.

Og þróunin sé ekki aðeins bundin við Ísland því sambærileg aukning persónuverndarmála er einnig hjá systurstofnunum Persónuverndar í Evrópu. Hjá sumum þeirra er aukningin allt að fjögur hundruð prósent milli ára.