Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Aldrei fleiri konur á þingi

08.09.2015 - 10:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldrei hafa fleiri konur setið á þingi sem kjörnir þingmenn en þegar Alþingi kemur saman til fundar í dag. Þá verða konur 44,4 prósent þingmanna en áður höfðu konur mest orðið 42,9 prósent þingmanna.

Breytingin nú er til komin þar sem Ásta Guðrún Helgadóttir tekur sæti á þingi fyrir Pírata í stað Jóns Þórs Ólafssonar sem lætur af starfi og Sigríður Á. Andersen sest á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í stað Péturs Blöndal sem féll frá í sumar.

Konur skipa 28 af 63 sætum á Alþingi en karlar 35 ef horft er til kjörinna þingmanna, þá eru ekki taldir með varaþingmenn sem taka sæti á þingi tímabundið. Áður höfðu mest setið 27 konur á þingi sem höfðu náð kosningu. Það var eftir þingkosningar 2009. Mest hafa setið 30 konur á þingi í einu. Það var í október 2009. Þá sátu 26 kjörnar konur á þingi og fjórar sem varaþingmenn á sama tíma.

Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin á þing 8. júlí 1922. Sex árum áður var Bríet Bjarnhéðinsdóttir varamaður landskjörinna en tók aldrei sæti á Alþingi. 1927 gerðist það í fyrsta sinn að tvær konur náðu kjöri til þings. Guðrún Lárusdóttir sat ein á þingi frá 1931 til 1938, er hún lést. Engin kona sat á þingi frá 1938 til 1946 þegar Katrín Thoroddsen náði kjöri til Alþingis. Næstu ár sátu ein, tvær eða engin kona á þingi, allt til ársins 1971 þegar það gerðist í fyrsta sinn að þrjár konur náðu kjöri til Alþingis, þær Auður Auðuns, Ragnhildur Helgadóttir og Svava Jakobsdóttir. Sá fjöldi hélst til ársins 1983 þegar Kvennalistinn bauð fram. Þá fjölgaði konum úr þremur úr níu og hlutfall þeirra af heildarfjölda þingmanna úr fimm prósentum í fimmtán.

Konur skipuðu fyrst fimmtung þingsæta 1987, fyrst fjórðung 1995 og fyrst þriðjung sæta eftir kosningar 1999. Það var svo ekki fyrr en árið 2009, 94 árum eftir að konur fengu kosningarétt, sem hlutfall kvenna fór yfir 40 prósent.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV