Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei fleiri íslensk skáldverk gefin út

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Aldrei fleiri íslensk skáldverk gefin út

03.11.2019 - 18:50

Höfundar

Árið í ár verður algjört metár í útgáfu íslenskra skáldverka, barnabóka og ljóðabóka, að sögn Félags íslenskra bókaútgefenda. Útlit sé fyrir stærsta jólabókaflóð frá upphafi. 

Bókatíðindi gefa ágætis vísbendingu um það hversu margar bækur hafa verið gefnar út á árinu og því góður leiðarvísir fyrir lestrarhesta með valkvíða fyrir jólabókaflóðið. „Við erum akkúrat að leggja lokahönd á að koma þeim í prentun og þá er maður svolítið að sjá í alvöru hvernig þetta endar. Og þetta lítur út fyrir að verða algjört metár hvað varðar útgáfu í mörgum flokkum og þá kannski líka hægt að segja það er ótrúlega mikil gróska og ótrúlega mikið af nýjum ungum skáldum að stíga fram.“ segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. 

Útgáfa barnabóka hefur aukist gríðarlega eða um 47% frá því í fyrra. Ungmennabækur taka sömuleiðis stökk og eru þrjátíu og níu prósentum fleiri. Íslensk skáldverk eru 149 í ár og því tuttugu og einu prósenti fleiri en í fyrra. Ljóðabækur og leikrit halda áfram að sækja í sig veðrið og eru fimmtíu og einu prósenti fleiri í ár en í fyrra. 

Bryndís segir ekkert eitt skýra þessa aukningu. „Það er náttúrulega bara óhófleg bjartsýni íslenskra útgefa og skálda, áhugi, ástríða, ástríða er alveg örugglega rosalega stór hluti og svo er það bara lesgleði landans.“

Barnabókamarkaðurinn hefur stækkað mikið á síðustu árum. Útgáfa barnabóka hefur til að mynda tvöfaldast frá 2016. Af hverju vill fólk skrifa svona mikið fyrir krakka og börn? „Það er bara svo skemmtilegt! Börn vilja lesa alls kyns bækur. Þú getur ímyndað þér í barnabókum, það þarf svo fjölbreyttar barnabækur, það þarf ævintýrabækur, það þarf sósíal realisma og það þarf allskonar skáldverk þannig við þurfum mjög breiða útgáfu af barnabókum til þess að halda lestri lifandi.“ segir Bryndís. 

Opnað var fyrir umsóknir um endurgreiðslu vegna útgáfu bóka á íslensku í sumar og hafa borist 157 umsóknir. Nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku hefur samþykkt 99 umsóknir og er áætluð endurgreiðslufjárhæð vegna þeirra tæplega 20 milljónir. Fyrstu greiðslurnar eiga að berast umsækjendum í næstu viku samkvæmt svörum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Bryndís segir þetta afar jákvætt fyrir bókaútgáfu. „Flestar bækur verða örugglega betur unnar, meira verður eytt í ritstjórn eða útlit eða þýðingu eða eitthvað slíkt. En það er líka að einhverjar bækur munu lækka í verði og einhverjar bækur munu koma út sem hefðu bara ekkert komið út. Ég vonast allavega til þess að við sjáum fjölbreyttari útgáfu og betri útgáfu“

Lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku var harðlega gagnrýnt á sínum tíma. Bent var á að endurgreiðslukerfið gagnist eingöngu útgefendum en ekki rithöfundum og dregið var í efa að endurgreiðslan muni skila sér í lægra bókaverði. Rithöfundar stigu fram og sögðust sitja eftir með sárt ennið eftir svikin loforð mennta- og menningarmálaráðherra um afnám  virðisaukaskattsins á bókum. Einar Kárason rithöfundur gekk svo langt að setja tíðindin um endurgreiðslukerfið ein verstu ótíðindi sem rithöfundar hafi heyrt. 

Bryndís segir að áhrif af endurgreiðslu muni í raun ekki birtast fyrr en eftir nokkur ár. „Hvað er of dýrt og ekki of dýrt? Bækur hafa í raun lækkað í verði miðað við uppreiknað verð sé litið aftur í tímann. Við erum auðvitað að horfa á gjörbreytta tíma núna, afþreyingariðnaðurinn býður upp á mjög ódýra afþreyingu þannig auðvitað kosta bækur en ég held þær séu alls ekki of dýrar. Ég held að við sjáum þetta ekki í raun og veru fyrr en eftir svona tvö til þrjú ár hvernig það mun hafa áhrif á útgáfuna til þess að hægt sé að meta áhrifin.“

Bryndís segir að nú sé úr nægu að velja. „Mann langar að segja við lesendur, auðvitað lestu þinn uppáhalds höfund en jafnframt gefðu þér tíma til að kynnast öllum þessum nýju nöfnum sem eru að koma fram og verkum þeirra.“

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Styrkir samkeppnisstöðu íslenskra bóka

Stjórnmál

Afnema ekki virðisaukaskatt á bækur strax