Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aldrei fleiri bílaleigubílar á vegum landsins

14.06.2017 - 21:47
Mynd með færslu
 Mynd: RouteOne - Youtube
24 þúsund bílaleigubílar eru nú í umferð á Íslandi og hafa aldrei verið fleiri. Óhöppum slysum tengdum ferðamönnum í umferðinni fer fjölgandi. Aðstæður hér á landi eru engu líkar segir samskiptastjóri Samgöngustofu. Ferðamenn séu margir með litla reynslu af akstri þó þeir hafi gild leyfi til að leigja og aka bílum.

Nú nálgast sá árstími þar sem umferð um þjóðvegi landsins er hvað mest. Hlutfall ferðamanna sem taka bíla á leigu er hærra hér á landi en víðast hvar annars staðar. 

Þórhildur Elín Elínardóttir er samskiptastjóri hjá Samgöngustofu: „Ferðafólkið sem er að koma hingað í dag er ekki sama fólkið og var hér í gær þannig að við erum í rauninni alltaf að uppfræða nýtt fólk um þessa sérstöðu sem að við Íslendingar erum vön en þau ekki.“

Margir ferðamenn sem hingað koma hafi gilt ökuskírteini, búi í stórborgum en nýti sér alla jafna aðra ferðamáta en einkabílinn, keyri sárasjaldan og kunni lítið sem ekkert á aðstæður eins og hér. 

„Það er ekki gerð krafa um alþjóðlegt ökuskírteini. Í rauninni er það bara viðbótarpappír sem að segir ekkert mikið meira en ökuskírteinið sjálft.“

Samgöngustofa hefur gert kennslumyndbandið Elfis sem finna má á vefsíðunni drive.is þar sem farið er yfir það sem helst ber að varast á vegum úti. Einnig er spjöldum með leiðbeiningum komið fyrir á stýri bíla áður en þeir eru leigðir út.

„Hér engar hraðbrautir, hér er bara ein leið í hvora átt og fólk þarf að taka framúr ef það vill komast hraðar. Hér er lausamöl víða, hér eru kindur við veginn. Hér eru víðerni, fossar og fjöll í allar áttir. Hér eru einbreiðar brýr og blindhæðir. Þetta eru allt hlutir sem margir eru ekki vanir úr sínu heimalandi og þurfa að læra á og við viljum hlest að þau læri á það áður en þau koma en ekki með biturri reynslu. “

Bílbeltanotkun sé ekki almenn hjá ferðamönnum og þeir séu oft svo uppteknir af því sem fyrir augu ber að þeir missa athyglina af veginum. Sumir aki of hægt og skapi þannig hættur. Þá eru dæmi um að þeir stoppi á hættulegum stöðum til að taka myndir. 

„Þessi gagnkvæma tillitsemi hún skiptir öllu máli. Við erum öll þáttakendur í umferðinni. Alveg sama hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Mestu máli skiptir að halda ró sinni. Við erum öll saman í þessu. Það skiptir engu máli hvort við séum Íslendingar eða útlendingar.“
 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV