Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei fer í streymi frá Ísafirði og Kópavogi

Mynd: Hörður Sveinsson / Hörður Sveinsson

Aldrei fer í streymi frá Ísafirði og Kópavogi

18.03.2020 - 09:41

Höfundar

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður sem haldin hefur verið á Ísafirði um páskana í næstum tvo áratugi verður ekki blásin af eins og svo margir viðburðir vegna samkomubannsins og COVID-19; heldur verður tónleikum sjónvarpað og streymt beint í stofur landsmanna laugardaginn 11. apríl.

„Við heyrðum tilkynnt í fréttatíma að Aldrei fór ég suður yrði aflýst, sem er svo sem skiljanlegt miðað við samkomubannið, það hafa yfirleitt verið mörg þúsund gestir. En okkur fannst það svona sísta af þeim valmöguleikum sem voru í boði að aflýsa. Þannig þetta var lendingin, við höldum okkar striki en bönnum fólki að koma,“ segir Kristján Freyr Halldórsson sem hefur verið rokkstjóri Aldrei fór ég suður frá 2016. Aðstandendur tala í þetta skipti um rafræna rokkhátíð alþýðunnar. „Við byrjuðum á því að mæla stuðið hjá bakhjörlum okkar og tónlistarfólkinu sem við höfðum bókað. Og stuðmælingin fór fram úr björtustu vönum, allir vildu vera með. Þá var eftirleikurinn auðveldur að útfæra þetta, sem verið er að gera núna og mun skýrast betur á næstu dögum. Þetta eru tveir tónleikastaðir, á Ísafirði og fyrir sunnan og við streymum tónleikunum í mynd frá báðum stöðum.“

Kristján segir sjálfsmynd hátíðarinnar vera vestfirska og samfélagið þar hafi ávallt verið sett í nærmynd, auk þess sem ákveðin vestfirsk slagsíða hafi verið á hljómsveitum og tónlistaratriðum sem bókuð eru. „Það eru fjölmörg atriði í ár úr heimabyggð, til dæmis Helgi Björns, Mugison, Between Mountains og hljómsveitin Æfing frá Flateyri, og eitthvað af þeim verður streymt að vestan. Síðan verður streymt frá húsakynnum Exton í Kópavogi.“

Kristján Freyr segir það hafa verið sérstaklega mikilvægt að halda góðum samskiptum við tónlistarfólkið sem fram kemur, en listafólk sé almennt að verða fyrir miklum tekjumissi í samkomubanninu. „Það er sérstaklega leiðinlegt gagnvart tónlistarfólki sem svo oft svarar kallinu og spilar ókeypis þegar eitthvað bjátar á, og styðja við góð málefni. Núna er hins vegar tónlistarfólki aflýst í bak og fyrir, en við vildum ekki gera það og vonandi setjum eitthvað fordæmi í því á þessum fordæmalausu tímum.“ Kristján segir æðislegt að allir hafi verið til í að halda hátíðina með þessu óvenjulega sniði, þó vissulega sé leiðinlegt að fólk leggi ekki land undir fót og heimsæki kjálkann. „En með hækkandi sól vonumst við til að fólk ferðist vestur í sumar og gefi fólki fimmu fyrst það gat það ekki um páskana, og kaupi sér kannski plokkfisk og rækjur.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Vestfirsk slagsíða á Aldrei fór ég suður

Menningarefni

Aldrei meiri umferð fyrir Aldrei fór ég suður

Rjóminn af rappinu á Aldrei fór ég suður

Ísafjarðarbær

Tvíhöfði skemmtir á Aldrei fór ég suður