Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei áður fengið önnur eins viðbrögð

Mynd: Skjaldborg / Skjaldborg

Aldrei áður fengið önnur eins viðbrögð

28.10.2019 - 17:06

Höfundar

Það er óhætt að segja að heimildamyndaröðin Svona fólk sem sýnd var á RÚV síðastliðin fimm sunnudagskvöld hafi vakið verðskuldaða athygli. Svona fólk fjallar um mannréttindabaráttu homma og lesbía, hinsegin fólks, hér á landi síðastliðin rúm 40 ár, frá því að Samtökin 78 voru stofnuð.

Svona fólk fjallar um erfiðleikana og fordómana sem mættu hommum og lesbíum  í upphafi, sigra og og ósigra, gjörbreytingu á viðhorfi þjóðarinnar um miðjan tíunda áratuginn, réttarbætur löggjafans, tregðu þjóðkirkjunnar til að viðurkenna fullan rétt samkynhneigðra og í lokin klofning og sárindi í samfélagi þeirra sem enn hafa ekki gróið. Höfundur myndarinnar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Hún vann að henni í 26 ár. Spegillinn ræddi við Hrafnhildi í dag.

Allar dyr lokaðar í fyrstu 

„Fyrsta viðtalið tók ég 1992 og málið sem hreif við mér á þeim tíma var alnæmið. Þá var ég tæplega þrítug, 28 ára, og við erum að upplifa það að vinir okkar, jafnaldrar, eru í hrönnum að veikjast og deyja. Það var dálítið álag og ég tók þá viðtal við ágætan vin minn, Björn Braga Björnsson, og það í raun og veru lætur boltann rúlla. Ég reyndi að fá fjármagn þá strax til að geta safnað þessu efni, en það gekk afar illa. Það var ekki í marga sjóði að sækja. Ég kom alls staðar að lokuðum dyrum. Samt var gríðarlegur áhugi á þessu.

Fyrsta fjármagnið sem ég fæ kemur í kringum 2002. Svo fékk ég vilyrði frá kvikmyndasjóði 2003. En verkefnið tefst af mörgum ásæstæðum og í raun og veru var það gott þegar litið er til baka, því þar með fékk ég tækifæri til þess að ljúka við mjög mikilvæga sögu yfir þetta 40 ára tímabil."

Alnæmið þurfti sérstakan þátt

Varstu allan tímann með það í huga að hafa þetta svona langt?
„Nei. Ég ætlaði að gera eina kvikmynd í fullri lengd. Það var ekki fyrir en 2014-2015 að ég átta mig á því að það er engin leið fyrir mig að klippa þetta efni niður í 90 mínútna kvikmynd. Þá talaði ég aftur við Skarphéðin Guðmundsson dagskrárstjóra hjá RÚV og Heru Ólafsdóttur hjá RÚV. Þau voru til í að kaupa fjóra hálftíma þætti, en ég vissi strax að það myndi heldur ekki duga. Ég fór aftur til þeirra og sagði að þetta yrðu 45 mínútna þættir, gætu verið lengri, og þeir yrðu fimm talsins. Það var alveg ljóst að alnæmið yrði að sitja í miðjunni með nánast sinn eiginn þátt."

Svo fór þetta fólk að deyja

En þú hefur viðað að þér miklu efni, bæði frá sjálfri þér og annars staðar frá?
„Já, ég passaði upp á það að taka viðtöl. Það voru mjög margir sem hjálpuðu mér á leiðinni. Þetta var ekki ég ein. Það er sjaldnast þannig. Þarna voru kvikmyndatökumenn og spyrlar, en ég passaði sem sagt upp á það að taka upp efni með t.d. Guðna Baldurssyni, Gulla rakara og Stellu, sem var mikill og litríkur karakter í okkar samfélagi. Svo fór þetta fólk að deyja og hverfa og sagan með því. Sem betur fer þá náði ég einhverjum viðtölum á band."

Íslenska fjölskyldan tók völdin 

Hvað finnst þér standa upp úr í í þessari sögu? Það eru þarna nokkrir hápunktar?
„Þeir hápunktar sem höfðu mikið að segja í okkar réttindabaráttu eru nokkrir. Augljóslega lögin um staðfesta samvist, sem gengu í gildi 1996 og öll sú umræða sem átti sér stað í samfélaginu fram að þeim tíma. Það olli algjörum straumhvörfum. En að sama skapi þá var alnæmið algjör örlagavaldur í þessu vegna þess að þarna urðu samkynhneigðir stærð í samfélaginu sem að yfirvöld þurftu að tala við.

Einhvern veginn hafði það þau áhrif að lokum að íslenska fjölskyldan í raun og veru tók málið upp á sína arma. Það var mjög mikilvægt því að þarna hafði mörgum verið fórnað, ungum fallegum strákum, sem breyttust í gamalmenni og dóu á skömmum tíma. Svo tel ég líka að fjölskyldurétturinn skori hátt.  Þorvaldur Kristinsson og Rannveig Traustadóttir gáfu út mjög áhugaverða bók um fjölskyldurétt í kringum 2003. Svo voru það lögin um leyfi til ættleiðingar, leyfi til stjúpættleiðinga því fólk bjó í samböndum og réttur makans var ekki tryggður. Það var mikið grettistak þegar þessi lög fóru í gegn."

Meiri nánd á Íslandi, en annars staðar

Þú minnist þarna á íslensku fjölskylduna. Að hún hafi tekið málin í sínar hendur. Þetta gerist nánar á einni nóttu um miðjan tíunda áratuginn. Er þetta einstakt meðal þjóða?
„Ég held það. Það er meiri nánd hérna. Ég bjó sjálf á vesturströnd Bandaríkjanna til langs tíma og þar bjó maður í ákveðnu gettói. Fjölskyldan er ekki nálæg. Það er talað um gay fjölskylduna, sem er vissulega eðlilegt. En mér finnst það vera þannig að íslenskar fjölskyldur sögðu einfaldlega hingað og ekki lengra. Þetta er okkar fjölskylda og það var mjög fallegt. Ég gerði kvikmynd sem heitir Hrein og bein í kringum aldamótin með Þorvaldi Kristinssyni og hún fjallaði um foreldra sem slógu skjaldborg í kringum sína."

Sárin ógróin frá 2016

Í fimmta og síðasta þættinum er sagt frá átakafundi hjá Samtökunum 78 árið 2016. Þú tekur nokkuð skýra afstöðu gegn aðildarumsókn BDSM samtakanna í samtökin. Samtökin breytast þarna. Eru sárin sem þarna mynduðust ógróin enn þá?
„Já vissulega. Þau eru ógróin. Að vísu skal það viðurkennast að samtökin þróast yfir langan tíma. Það hafa verið átök á öðrum tímum eins og þegar tvíkynhneigðir vildu inn. Svo í minni tíð sem formaður þá tókum við trans málin upp á okkar arma. Mér fannst ómögulegt að transfólk væri fyrir utan samtökin. En það var vinna sem átti sér stað yfir tveggja til þriggja ára tímabil. Þá bað ég þá sem voru mest á móti því að þeir kæmu inn að vera með okkur í þeirri vinnu og vinna greinargerðir. Þannig að það var dálítið öðruvísi stemming en árið 2016.

Er ekki lengur í Samtökunum 78

Þegar BDSM vildu komast inn undir verndarvæng samtakanna þá tók ég nokkuð sterka afstöðu gegn því. Ég hef ekkert út á þann hóp að setja. Þau hafa fullan rétt til þess að berjast fyrir sínum réttindum. Ég tel hins vegar BDSM vera blæti. Ég get ekki séð í fljótu bragði að þetta sé mannréttindamál. Þess vegna kaus ég að tala í þessum hávaða og látum vegna þess að ég vildi líka umgangast málið af einhverri virðingu. En þetta sprakk í loft upp. Ég er ekki félagi í Samtökunum 78 í dag, en það eru ýmsar ástæður sem liggja þar að baki. Við höfum ákveðnar grunsemdir um að það hafi verið mikið smalað inn á þennan fund og þarna hafi eldri félagar hafðir undir. Þetta var mjög óásættanlegt fyrir mig."

Kölluð afturhaldsseggir og forréttindahommar og -lesbíur

Það mátti líka greina sárindi hjá fyrrverandi formanni Samtakanna 78, Þorvaldi Kristinssyni, þegar hann sagði í myndinni að þessi hópur sem tók yfir fundinn skuldi tveimur kynslóðum homma og lesbía afsökunarbeiðni?
„Já þetta var mjög óvægin umræða á þessum tíma. Við vorum kölluð ýmsum nöfnum. Við vorum afturhaldsseggir, forréttinda hommar og forréttinda lesbíur. Þetta var grimmast á samfélagsmiðlunum. Við lifum nú á þeim tímum þar sem tröllin geta tekið yfir og þessi umræða var mjög óvægin. Þannig að ég setti ummæli Þorvaldar inn í lokin á myndinni. Þetta er að mörgu leyti mín afstaða líka."

Ókunngt fólk þakkar mér fyrir 

Hvaða viðbrögð hefur þú fengið við þessari heimildamyndaþáttaröð?                  „Ég hef aldrei fengið eins mikil viðbrögð við neinu sem ég hef gert. Það er mjög ánægjulegt, vegna þess að þetta hefur tekið langan tíma. Þetta hefur verið blóð sviti og tár. Ókunnugt fólk er að stoppa mig úti á götu, inni í Costco, og þakkar mér fyrir. Ég fæ fjöldann allan af bréfum. Þetta er nánast allt jákvætt."

Ný mynd frumsýnd síðar í vikunni 

Hvað tekur nú við hjá þér?  
„2018 var stórt ár hjá mér. Ég held ég hafi samtals gert 20 sjónvarpsþætti og eina kvikmynd í fullri lengd. Hún verður frumsýnd núna í Reykjavík. Hún heitir Vasulka áhrifin og fjallar um frumkvöðla í vídeólist, hjónin Steinunni Bjarnadóttur Briem Vasulka og Woody Vasulka.  Þau eru í raun frægustu listamenn síðari endurreisnartímabilsins í listum. Þau eru algjörir frumkvöðlar. Myndin er skemmtileg og áhugaverð. Við frumsýnum hana á fimmtudaginn 31. okt. í Bíó Paradís."

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Ég ætla ekki að enda svona“

Sjónvarp

„Ég samhryggist þeim sem kynna sér ekki mál“

Sjónvarp

Persónuleg heimildarmynd um réttindabaráttu

Sjónvarp

Hjartað stoppaði og tárin spýttust fram