Aldagamlar menningarminjar Íslendinga hverfa í hafið

23.03.2020 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Mikill sjógangur og stormasamur vetur hefur flýtt því að aldagamlar menningarminjar hverfi endanlega í hafið.

Víða um land má finna leifar gamalla verstöðva allt frá landnámi. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi er mikið af þeim.

Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands, segir þar sjáanlegar þykkar leifar af beinum og þykkmannvistarlög

„Hérna hefur auðsjáanlega verið búseta eða verstöð lengi vel,“ segir hann.

Landrof hefur aukist með stromasömum vetri

Þessar minjar liggja fyrir opnu hafi og hefur töluverður hluti þeirra horfið í sjó á síðustu áratugum. Þá hefur stormasamur vetur valdið meira tjóni en ella.

„Það hefur örugglega flýtt þessu og maður sér bara hvað stök veður geta haft mikil áhrif. Maður sá við Írskrabrunn þegar hann skemmdist á sínum tíma. Þetta var bara eitt veður má segja sem jós stórgrýti yfir og stórskemmdi það. Það var í raun ótrúlegt hversu mikið gat skemmst á stuttum tíma. Heimamenn tala um að hérna bara á undanförnum 20-30 árum hafa tíu til fimmtán metrar farið af jarðveginum ofan af klöppinni,“ segir Magnús.

Óafturkræft tjón víða um land

Þetta á ekki einungis við á Gufuskálum. Tjón hefur orðið víða um land í vetur, svo sem við Kolkuós í Skagafirði, á Vestfjörðum og Reykjanesi. Magnús segir tjónið stórt.

„Við náttúrulega erum að missa þessar upplýsingar í sjóinn sem minjarnar varðveita. Það er óafturkræft og við sjáum það ekki aftur. Það er mjög erfitt að horfa upp á hvernig veðrið og veðurharkan hefur farið með þessa strandlengju hérna.“

Þörf á rannsóknum áður en minjarnar hverfa

Það er ekki hlaupið að því að vernda minjarnar. Sjóvarnargarðar eru valkostur, en Magnús segir að sú lausn henti ekki í hverju tilviki. Þörf sé á auknu fjármagni til rannsókna áður en sjórinn hrifsar minjarnar endanlega til sín.

„Minjastofnun er það lítil stofnun. Ég meina, við erum ekki nema rúmlega tuttugu og erum út um allt landið. Erum ekki með neina landverði og ekki neitt svo við getum lítið sinnt þessu. En þess væri óskandi að það fyndist fjármagn til þess að rannsaka það betur.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi