Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alcoa og Norðurál ætla ekki að draga úr framleiðslu

31.01.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Norðurál og Alcoa Fjarðaál ætla ekki að draga úr álframleiðslu þrátt fyrir lækkað heimsmarkaðsverð á áli. Upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls segir að leitað verði leiða til að hagræða í rekstri en ekki standi til að grípa til uppsagna.

Stjórnendur Álversins í Straumsvík tilkynntu á dögunum að dregið yrði úr álframleiðslu um fimmtán prósent á þessu ári, vegna erfiðrar stöðu á álmörkuðum á heimsvísu. Þetta hefur þau áhrif að tekjur Landsvirkjunar dragast saman um tvo og hálfan milljarð króna í ár.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir að aðstæður á markaði séu vissulega krefjandi, en ekki verði dregið úr framleiðslu.

31012020  AMO  Dagmar
Inn: Við verðum að sjálfsögðu, eins og öll önnur álfyrirtæki, vör við hvernig staðan er á mörkuðum, og lækkað álverð hefur auðvitað mikil áhrif á okkur,“ segir Dagmar. Því verði reynt að hagræða í rekstri og draga úr kostnaði eins og unnt er. Dagmar segir að ekki standi til að segja upp starfsfólki. „Ég á ekki von á því eins og er, það eru allavega ekki nein plön um það hjá okkur, en auðvitað veit maður aldrei hvernig markaðurinn hegðar sér og við þurfum að bregðast við því í hvert skipti, en eins og staðan er akkúrat núna þá ætlum við ekki að segja upp fólki og forðumst það auðvitað í lengstu lög.“

Dagmar segir að menn bindi vonir við að álverðið hækki á ný. „En þetta snýst um Kína og þá offramleiðslu sem er að eiga sér stað þar.“

Hjá Norðuráli fengust þær upplýsingar að ekki standi til að draga úr álframleiðslu.