Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ALC lagði Isavia í þotudeilunni

17.07.2019 - 10:13
Mynd:  / 
Bandaríska leigufélagið ALC lagði Isavia í Héraðsdómi Reykjaness í morgun þegar dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að félaginu bæri eingöngu að greiða þær skuldir sem hvíldu á þotunni, sem félagið leigði WOW en var kyrrsett eftir að flugfélagið var gjaldþrota,en ekki allar skuldir WOW air við Isavia. Lögmaður ALC segir að félagið geti náð í þotuna strax því kæra til Landsréttar frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar héraðsdóms.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, segir dómarann í málinu eingöngu hafa verið að standa með fyrri úrskurð sínum. Hann segir að þótt Isavia láti reyna á málið fyrir Landsrétti fresti það ekki réttaráhrifum úrskurðarins og því geti ALC fengið þotuna aftur strax. Hann segir að nú verði skoðað hvort Isavia sé skaðabótaskylt en ljóst sé að ALC hafi orðið fyrir talsverðu tjóni vegna málsins.

Málið hefur velkst um í dómskerfinu en ALC hefur ávallt haldið því fram að því beri ekki að borga allar skuldir WOW.  Þetta er í þriðja sinn sem það kemur fyrir héraðsdóm. Fyrst komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ALC bæri ekki að greiða allar skuldir WOW heldur eingöngu þær sem hvíldu á þotunni. Isavia skaut þeim úrskurði til Landsréttar en í millitíðinni lagði ALC fram nýja aðfarabeiðni sem héraðsdómur vísaði frá.

Landsréttur staðfesti síðan að Isavia hefði haft heimild til að kyrrsetja þotuna en tók ekki afstöðu til þess hvort að Isavia ætti kröfu á ALC um að fyrirtækið greiddi skuldir WOW air við Isavia eða hversu stóran hluta þeirra. ALC skaut þeim dómi til Hæstaréttar sem vísaði málinu aftur til Landsréttar.

ALC lagði svo fram nýja aðfarabeiðni sem héraðsdómur tók fyrir á mánudag og dómstóllinn komst síðan að þeirri niðurstöðu í morgun að bandaríska félaginu bæri ekki að borga alla skuldir WOW heldur eingöngu þær skuldir sem hvíldu á vélinni sjálfri eða 87 milljónir.

Isavia kyrrsetti þotuna eftir að WOW varð gjaldþrota vegna skulda flugfélagsins við Isavia en þær eru taldar nema um tveimur milljörðum. Vélin hefur verið á Keflavíkurflugvelli í nærri fjóra mánuði. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV