Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ákvörðun Ólafs Ragnars ákveðinn léttir

01.01.2016 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákveðinn léttir segir Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta að bjóða sig ekki fram til endurkjörs í vor. Ólafur Ragnar hafi verið lengi í þessu embætti og kominn tími til að aðrir gegni hluverki sameiningartákns þjóðarinnar. Engu síðar vill hún þakka Ólafi fyrir störf hans í embætti og ekki síst framgöngu hans í Icesave-málinu.

Þar hafi hann brugðist við ákalli þjóðarinnar og hún vonar að einhver bjóði sig fram nú sem sé tilbúinn að vera brú milli þings og þjóðar á meðan stjórnskipunin er eins og hún er.

Birgitta telur ekki hægt að horfa fram hjá því að Ólafur Ragnar hafi verið ákveðinn klappstýra útrásarvíkinganna en mikils vert sé að hann hafi brugðist við ákalli þjóðarinnar. Þá hafi hann verið öflugur í alþjóðastarfi, ekki síst varðandi norðurslóðir og sjálfbærni.

Hún telur þörf á því að endurmeta embætti forseta sem sé að mörgu leyti barn síns tíma og arfur frá konungsveldi Danmerkur. Forsetinn hafi í hennar huga ekki ákveðið hlutverk í nútíma lýðræðisríki.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV