Ákvað að skrifa bók því hann vildi gefa góð svör

Mynd: Arnar Pétursson / Arnar Pétursson

Ákvað að skrifa bók því hann vildi gefa góð svör

04.12.2019 - 16:26
Arnar Pétursson hefur 25 sinnum orðið Íslandsmeistari í hlaupi og var orðinn þreyttur á að fá spurningar frá fólki um hvernig það ætti að ná árangri við þessa „einföldustu íþrótt í heimi.“ Hann skellti því í hnausþykka biblíu um allt sem þarf að vita um hlaup.

Arnar Pétursson hefur æft hlaup í átta ár. Árið 2017 varð hann Íslandsmeistari í níu greinum. Arnar gaf út bók á dögunum sem heitir einfaldlega Hlaupabókin, fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Arnar ákvað að skrifa bókina því fólk var sífellt að spyrja hann að einhverju tengdu hlaupinu. 
 

„Mig langaði að gefa góð svör af því að ég vildi ekki að fólk myndi fara út og segja, Arnar sagði mér að gera þetta, og það væri bara eitthvað bull. Þannig ég vildi gefa greinargóð svör.“

Bókin er 416 blaðsíður. Arnar segir að fyrsta setningin í bókinni sé að í fyrstu virðast hlaup vera einfaldasta íþrótt sem til er, en svo fylgja 416 blaðsíður. Hann segir að þetta sé ekki bara um hlaup heldur líka um það hvernig þú helst meiðslalaus og um andlega þáttinn.  
 

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Ægisdóttir - Íþróttabandalag Reykjavíkur

Arnar hefur alltaf verið mikið í íþróttum. En hann segir að ástæðan fyrir því afhverju hann fór úr hópíþróttum í hlaup sé að þegar hann var átján ára þá ákvað hann að skrá sig í heilt maraþon án þess að æfa fyrir það. Eini undirbúningurinn hjá honum þá var að gera góðan lagalista. 
 

„Ég hugsaði bara þetta getur ekki verið það mikið mál fyrst að pabbi minn gerði þetta fyrir tveimur árum og hann var ekkert að æfa eins og brjálæðingur en svo endaði ég í öðru sæti af íslendingunum þar og slá einhver tuttugu ára gömul Íslandsmet í 18-20 ára.“

Árið 2018 sló Eliud Kipchoge heimsmetið í maraþoni. Svo á þessu ári hljóp hann undir tvo tíma í uppsettum viðburði gagngert til þess að slá þennan tveggja tíma múr. Arnar Pétursson og Jafet Máni prófuðu að hlaupa á hraðanum sem Eliud Kipchoge var á.

Sjáðu viðtalið við Arnar Pétursson í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.