Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Akureyri verði viðurkennd sem borgarsvæði

23.01.2020 - 10:27
default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Akureyrabær vill að stjórnvöld viðurkenni það svæðisbundna hlutverk sem bærinn hafi sem stærsta sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórinn segir að Akureyri gegni að mörgu leiti sama hlutverki og Reykjavíkurborg á suðvesturhorninu.

Akureyrarbær sendi nýlega erindi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar sem farið er fram á samstarf og stuðning við að efla Akureyri sem annað vaxtarsvæði á landinu til mótvægis við höfuðborgina. Akureyri hafi mörg einkenni borgar og borgarsamfélags og meðal annars er vísað í sóknaráætlun Norðurlands eystra þar sem stendur að Akureyri verði skilgreind opinberlega sem borgarsvæði.

Akureyri verði öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið

„Að sjálfsögðu viljum við fjármagn og stuðning í einstaka verkefni. Og stuðning í þau uppbyggingaverkefni sem við teljum að þurfi að fara í til þess að Akureyri geti verið það afl og það mótvægi við höfuðborgarsvæðið, sem það þarf að vera,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. 

„Við teljum okkur vera hina borgina hér á Íslandi“

Sem dæmi um sérstöðu Akureyrar, umfram önnur sveitarfélög, nefnir hún menningarmálin. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir tæpum 910 milljónum í þann málaflokk. Þar ber hæst rekstur menningarhússins Hofs, sinfóníuhljómsveitar, atvinnuleikhúss og listasafns. Þá nefnir Ásthildur rekstur varasafns Landsbókasafnsins, öflugt skíðasvæði, umfangsmikla öldrunarþjónusutu og fleira. „Þannig að já, við teljum okkur vera hina borgina hér á Íslandi. Við erum að sinna mjög mörgum málaflokkum að svipuðu leiti og borgin. 

Fjölbreytt samfélag með sterku atvinnu- og menningarlífi.

Og þarna segir hún hugsað nokkur ár fram í tímann. En framtíðarsýnin sé að Akureyrarbær og svæðið þar í kring verði 25 þúsund manna samfélag með mikilli þjónustu og sterku atvinnu- og menningarlífi. „Og við séum með millilandaflug í gegnum Akureyrarflugvöll og sterkan háskóla, sterkt sjúkrahús sem verði háskólasjúkrahús, og sterka innviði til þess að sinna öllum þeim þörfum sem íbúarnir hafa.“