Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Akurey friðlýst til að vernda fuglalíf

03.05.2019 - 06:01
Mynd með færslu
Lundi í Akurey. Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Akurey verður fyrsta friðlandið innan marka Reykjavíkurborgar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun undirrita friðlýsingu eyjunnar í dag. Með friðlýsingu friðlands er verið að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði líffvera og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að í þessu tilfelli sé verið að vernda mikilvægt varpsvæði lunda og búsvæði teistu og æðarfugls.

Akurey er á Kollafirði, norðaustan við Seltjarnarnes. Eyjan er 6,6 hektarar að stærð, láglend og vel gróin. Þar er mikilvæg sjófuglabyggð og ýmsir sjófuglar verpa þar, svo sem lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista. Lundinn er langalgengastur, um 15.000 pör, samkvæmt upplýsingum á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands

Fjögur friðlýst svæði eru fyrir í Reykjavík. Þrjú þeirra eru náttúruvætti, en til þeirra teljast til dæmis fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, og eitt er fólkvangur, sem er svæði til útivistar, að sögn Þórdísar Vilhelmínu. Náttúruvættin eru Fossvogsbakkar í Fossvogi, Laugarás í Langholtshverfi og Háubakkar í Elliðaárvogi en Rauðhólar við Elliðavatn eru fólkvangur. Tuttugu ár eru síðan síðast var friðlýst í Reykjavík, það var 1999 þegar Fossvogsbakkar voru friðlýstir. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun undirrita friðlýsingu eyjunnar í dag samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Friðlýsing Akureyjar er hluti af friðlýsingarátaki sem Guðmundur Ingi hrinti af stað á síðasta ári. Þetta er fyrsta friðlýsingin undir merkjum þessa átaks.

Fréttinni hefur verið breytt.