Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aksturskostnaður 16,6 milljónum lægri

15.10.2019 - 14:43
Mynd: Alþingi - skjáskot / Alþingi - skjáskot
Aksturskostnaður þingmanna hefur lækkað um sextán komma sex milljónir á ári síðan 2017, sé miðað við áætlaðar akstursgreiðslur á þessu ári. Þetta kom fram í ræðu Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata á Alþingi í dag, undir liðnum störf þingsins. 

Þingmenn fengu greiddar 42,7 milljónir króna í aksturskostnað árið 2017 og 30,7 milljónir árið 2018. Áætlaður kostnaður á þessu ári er 26,1 milljón. „Ég myndi alveg glaður kvitta fyrir því að ég er búinn að sinna starfi mínu hérna, búinn að borga launin mín og rúmlega það, miðað við þetta. Mér finnst þetta mjög góð niðurstaða og sýnir hvernig gagnsæi borgar sig einfaldlega,“ sagði Björn Leví í ræðu sinni í dag. 

Töluverð umræða var um akstursgreiðslur til þingmanna í byrjun síðasta árs. Árið 2017 fékk Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, 4,6 milljónir króna í akstursgreiðslur frá Alþingi. Hann hafði ekið 47.000 kílómetra í starfi sínu sem þingmaður. Þessar upplýsingar komu fram í fyrirspurn Björns Leví til forseta Alþingis. 

Björn Leví sagði í ræðu sinni í dag að skoða þurfi fleiri greiðslur, svo sem dagpeninga til þingmanna og ráðherra. „Þar sem það er skjalsett í svörum þingsins við fyrirspurn minni um dagpeninga ráðherra að akstur á flugvöll er tvígreiddur, að matarboð eru ekki talin sem hlunnindi, að endurgreiðsla vegna útlags kostnaðar dagpeninga er ekki talin sem hlunnindi,“ sagði hann.