Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Akranes vill sameinast Hvalfjarðarsveit

10.09.2019 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Ólafur Adolfsson, fulltrúi í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar, bauð Hvalfjarðarsveit til sameiningarviðræðna á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir helgi. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, segir samband sveitarfélaganna mjög gott og að Akranes sé jákvætt fyrir sameiningu. Þó standa engar sameiningarviðræður yfir.

„Ég hef að gamni líkt þessu við það að við erum búin að vera skotin í hinni stelpunni í sveitinni í mörg ár og ástin hefur ekki verið alveg endurgoldin fram til þessa,“ segir Sævar. Hann segir Ólaf endurspegla viðhorf sem hefur ríkt lengi á Akranesi.

Akraneskaupstaður er jákvæður gagnvart sameiningum sveitarfélaga. Bæjarstjórn telur þær stuðla að aukinni og bættri þjónustu til íbúa. Ólafur Adolfsson sagði þá á landsþinginu að oft þætti honum furða að Akraneskaupstaður sem telur um 7500 íbúa sé fær um að veita þá þjónustu sem krafist er. Sævar tekur undir þá staðhæfingu og segir þetta endurspegla viðhorf bæjarstjórnar. Hann telur að sameining og þar með fjölgun íbúa minnki kostnað við yfirbyggingu þjónustu og að þannig megi efla hana.

Samvinna á milli sveitarfélaganna

Samvinna er á milli sveitarfélaganna tveggja um ýmsa þjónustu. Samningur um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra var undirritaður á milli sveitarfélaganna í lok júní til eins árs. Þar tekur Akraneskaupstaður að sér þjónustu á þessum sviðum fyrir bæði sveitarfélögin, að undanskilinni félagslegri heimaþjónustu og félagsstarfi aldraðra. Eins standa sveitarfélögin saman að rekstri Tónlistarskóla Akraness og hafa gert í lengri tíma.

Björgvin Helgason, oddviti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, ber samstarfi og sambandi sveitarfélaganna góða sögu. Hann segir þó umræðu um sameiningu ekki hafa átt sér stað innan sveitarfélagsins og að engar viðræður séu við Akranes. Áður en slíkt sé skoðað þarf að sjá hvernig meðferð þingsályktunartillögu Sigurðs Inga Jóhannssonar, sveitarstjórnarráðherra, fari inni á Alþingi. Sævar tekur undir með Björgvin.

„Það eru engar formlegar viðræður við Hvalfjarðarsveit, en hver veit nema einhverskonar tilhugalíf eigi sér stað þegar og ef þetta er samþykkt.“