Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Akranes vill kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

11.07.2019 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar þurfi að fara í umhverfismat. Sveitarfélagið og íbúar þess hafi lögvarinna hagsmuna að gæta þegar komi að umferðaröryggi og því að framkvæmdinni sé hraðað svo ekki verði fleiri slys á umræddri leið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Von er á tilkynningu frá Vegagerðinni vegna málsins á morgun, en ekki hefur verið ákveðið hvort stofnunin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar. Kærufrestur rennur út á næstu dögum. 

Ef ákvörðunin fær að standa og framkvæmdirnar fara í umhverfismat er víst að þær tefjast. Sem stendur er gert ráð fyrir að hafist verði handa í haust og að verkinu ljúki árið 2022.  

Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að með framkvæmdinni eigi að „taka á lífshættulegum aðstæðum sem vegfarendum er boðið upp á sem óskiljanlegt er að ákvörðun Skipulagsstofnunar taki ekki mið af.“ Hún hafi því jákvæð samfélagsleg áhrif og eigi að bæta umferðaröryggi. 

Tvö banaslys urðu á Vesturlandsvegi í fyrra og fleiri alvarleg umferðarslys hafa orðið á vegkaflanum sem á að breikka. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, undirstrikar að breikkun vegarins sé mikið öryggismál.

Skipulagsstofnun úrskurðaði í júní að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar þurfi að fara í umhverfismat. Til stendur að breikka um níu kílómetra kafla um Kjalarnes, á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg, þannig að tvær akreinar verði í aðra áttina og ein í hina. Einnig verði lagðir hliðarvegir, hringtorg og göngu-, hjóla- og reiðstígar. 

Í tilkynningu Akraneskaupstaðar segir að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, en vegurinn liggi ekki um náttúruverndarsvæði. Rökstuðning skorti fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Auk þess sé ósamræmi við fyrri ákvarðanir hennar um sambærileg mál. Þá segir að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins. Ákvörðunina beri að ógilda, ekki sé lagaheimild fyrir henni.