Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ákært fyrir grófar líkamsárásir á Akureyri

04.02.2020 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Sjö menn hafa í tveimur sakamálum verið ákærðir fyrir frelsissviptingu og grófar líkamsárásir í heimahúsum á Akureyri. Einn mannanna kemur fyrir í báðum ákærunum.

Héraðssaksóknari hefur ákært fimm menn fyrir að hafa haldið þeim sjötta nauðugum í húsi á Akureyri í fimm klukkutíma í því skyni að innheimta peningaskuld við einn ákærða.

Þar beittu þeir manninn hótunum og margvíslegu ofbeldi. Kýldu hann ítrekað í andlit og víðar og spörkuðu í líkama hans. Þá var hann klipinn með töng, sleginn með hamri og vírbursta, og skærum stungið upp í nasir hans. Þá brenndu þeir manninn á höndum með sígarettu. Við þetta hlaut þolandi margs konar áverka, skurði, eymsli og blæðingar.

Fimmenningarnir eru sakaðir um brot á almennum hegningarlögum og þess krafist að þeir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fórnarlambið krefst fjögurra milljóna króna í skaðabætur og málskostnað.

Ákærður í báðum málunum

Einnig hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ákært þrjá menn fyrir líkamsárásir. Einn þeirra er jafnframt ákærður í því máli sem greint er frá hér fyrir ofan. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa ráðist snemma morguns að tveimur mönnum sofandi í íbúð á Akureyri og barið þá ítrekað með röri af ryksugu. Og síðar sama dag ráðist aftur á mennina og barið þá víðsvegar um líkamann með hnefum og klaufhamri.

Þolendurnir tveir hlutu margs konar áverka í þessum árásum, bólgur, mar og sár. Við handtöku fannst amfetamín á einum ákærða, þegar verið var að færa hann í fangaklega.

Mennirnir eru ákærðir fyrir brot á almennum hegningarlögum, auk brota á lögum um ávana- og fíkniefni. Þess er krafist að þeir verði dæmdir til refsingar, greiðslu sakarkostnaðar og fíkniefnin verði gerð upptæk.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV